Lærlingur Trump rekinn úr Hvíta húsinu

Omarosa Manigault hefur gjarnan birst á myndum úr Hvíta húsinu, …
Omarosa Manigault hefur gjarnan birst á myndum úr Hvíta húsinu, en starf hennar sem samskiptastjóra þykir þó hafa verið nokkuð óljóst. AFP

Omarosa Manigault sem var meðal þátttakenda í raunveruleikaþáttum Donald Trumps Bandaríkjaforseta The Apprentice, sem útleggja má sem lærlingurinn, er að hætta sem samskiptafulltrúi í Hvíta húsinu og segir BBC að hún hafi verið rekin.

Sarah Sanders, upplýsingafulltrúi Hvíta hússins staðfesti í dag að Manigault láti af störfum snemma á næsta ári.  

„Omarosa Manigault Newman sagði upp í gær og ætlar að snúa sér að öðrum verkefnum. Uppsögn hennar mun ekki taka gildi fyrr en 20. janúar 2018,“ sagði Sanders. „Við óskum henni alls hins besta í framtíðinni og erum þakklát fyrir þjónustu hennar.“

Manigault hefur verið sá blökkumaður sem hefur verið hvað mest áberandi í stjórn Trumps, þó samstarfsfólk hennar hafi oft dregið hlutverk hennar þar í efa. Hefur Manigault reglulega sést í mynd í Hvíta húsinu, en hlutverk hennar sem samskiptastjóri hefur þótt nokkuð óskýrt.

BBC segir John Kelly hafa rekið Manigault og að henni hafi verið fylgt út úr Hvíta húsinu eftir harða skammaræðu. Hvíta húsið fullyrðir hins vegar að hún hafi sjálf sagt upp störfum.

Ekki er langt síðan að greint var frá því að Manigault hefði haldið gjafaboð vegna giftingar sinnar í Hvíta húsinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert