Viðurkenna mistök í kjölfar árásar

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, ávarpaði samkomu í dag sem haldin …
Angela Merkel, kanslari Þýskalands, ávarpaði samkomu í dag sem haldin var í tilefni af því að ár er liðið frá hryðjuverkaárás á jólamarkað í miðborg Berlínar. AFP

Stjórnvöld í Þýskalandi hafa viðurkennt að mistök voru gerð í aðgerðum eftir mannskæða árás á jólamarkaði í miðborg Berlínar í desember í fyrra. 

Frétt mbl.is: Keyrði á mannfjölda á jólamarkaði

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, segir að leitast hafi verið eftir bestu getu að aðstoða alla þá sem hlutu skaða í árásinni og aðstandendur þeirra. Merkel hefur verið gagnrýnd fyrir viðbrögð stjórnvalda við árásinni.

Fjölskyldur hafa meðal annars stigið fram og greint frá því að þær hafi fengið senda reikninga fyrir kostnaði vegna krufningar á ástvinum sínum.

Rann­sókn á hryðju­verka­árás­inni leiddi í ljós að fjöldi víta­verðra mistaka af hálfu lög­reglu og annarra ör­yggisaðila hafi orðið til þess að árá­samaður­inn fékk svig­rúm til að skipu­leggja og fram­kvæma hryðju­verkið. Niður­stöðurnar eru birtar í 72 blaðsíðna skýrslu sem kom út í síðustu viku.

Frétt mbl.is: Vítaverð mistök voru gerð

Ár er liðið frá árásinni og að lokinni lokaðri athöfn fyrir syrgjendur og þá sem tóku þátt í björgunaraðgerðum ávarpaði Merkel samkomuna og sagði að nú væri kominn tími til að leiðrétta það sem hefði farið úrskeiðis.

„Ekki einungis til að tryggja öryggi, heldur til að gefa þeim sem upplifðu árásina tækifæri til að endurheimta líf sitt á ný á eins góðan hátt og mögulegt er,“ sagði Merkel.

Kanslarinn var einnig viðstödd minningarathöfn sem fór fram í nágrenni við jólamarkaðinn.

Merkel hefur verið sökuð um aðgerðarleysi þar sem hún setti sig ekki í samband við aðstandendur fórnarlamba árásarinnar. Hún hitti aðstandendur í fyrsta sinn á mánudag og lýsti samtalinu sem „hrottalega hreinskilnu.“

Frétt BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert