Í fullum rétti til að tala um ógeðfellda lykt í bænum

Ættir þú að flytja til Sibley í Iowa? Aðeins þú …
Ættir þú að flytja til Sibley í Iowa? Aðeins þú getur svarað því. Kort/Google

Bæjaryfirvöld í Sibley í Iowa í Bandaríkjunum hafa samþykkt að hætta við málsókn á hendur manni sem sagði að bærinn lyktaði eins og „þránaður hundamatur“.

Alríkisdómstóll í Bandaríkjunum hefur komist að þeirri niðurstöðu að vefhönnuðurinn Josh Harms væri í fullum rétti til að gagnrýna bæjaryfirvöld og setti varanlegt lögbann sem kemur í veg fyrir að bærinn geti farið í mál við Harms, að því er fram kemur á vef BBC.

Embættismenn í bænum hótuðu að fara í mál eftir að Harms setti vef í loftið sem kallast Should You Move to Sibley, Iowa?, sem útleggja má á íslensku sem: „Ættir þú að flytja til Sibley í Iowa?“ Þar lýsir hann miklum óþef sem leggur yfir bæinn. Lyktina segir hann minna á „rotnað blóð og gamlan bjór“. Lyktin er sögð koma frá verksmiðju þar sem afurðir eru unnar úr blóði svína.

Harms hélt því fram að hótun bæjaryfirvalda bryti gegn tjáningarfrelsinu. 

Bærinn hafði samband við hann í desember og sagði að hann hefði 10 daga til að taka niður vefsíðuna. Annars yrði höfðað mál.

Bandarísku mannréttindasamtökin American Civil Liberties Union (ACLU) höfðuðu mál í byrjun mánaðarins á hendur Sibley. Samtökin héldu því fram að bærinn bryti gegn stjórnarskrárvörðum rétti Harms til að gagnrýna stjórnvöld án þess að þurfa að verða fyrir aðkasti yfirvalda. Dómari komst svo að þeirri niðurstöðu í gær að bærinn væri í órétti og kom í veg fyrir að hann gæti höfðað mál gegn Harms. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert