Le Drian: Eyddu stórum hluta efnavopnanna

Jean-Yves Le Drian, utanríkisráðherra Frakklands, á blaðamannafundi í morgun eftir …
Jean-Yves Le Drian, utanríkisráðherra Frakklands, á blaðamannafundi í morgun eftir að hafa setið neyðarfund með Emmanuel Macron Frakklandsforseta. AFP

Jean-Yves Le Drian, utanríkisráðherra Frakklands, sagði í morgun að loftskeytaárásir vesturveldanna síðastliðna nótt hefðu eytt stórum hluta af efnavopnabirgðum Sýrlandsstjórnar.

„Stór hluti efnavopnabúrsins er eyðilagður,“ sagði Le Drian í viðtali við sjónvarpsstöðina BFM. 

Hann sagði enn fremur að frönsk stjórnvöld hefðu „skotheldar upplýsingar“ um að stjórn Bashars al-Assads Sýrlandsforseta hefði staðið á bak við efnavopnaárásina í borginni Douma um síðustu helgi, en talið er að a.m.k. 40 óbreyttir borgarar hafi látið þar lífið.

„Varðandi efnavopn: þar er rauð lína sem ætti alls ekki að fara yfir. Gerist það aftur, þá er von á annarri íhlutun,“ sagði Le Drian. „En ég held að þeir [Sýrlandsstjórn] hafi lært sína lexíu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert