Boltinn núna hjá Bandaríkjamönnum

Stjórnvöld í Norður-Kóreu hafa lýst yfir ánægju sinni með leiðtogafund Moon Jae-in, forseta Suður-Kóreu, og Kim Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu, sem fram fór í gær. Fram kemur í yfirlýsingu þeirra að fundurinn hafi verið sögulegur og upphaf nýrra tíma. Fréttaveita norðurkóreskra stjórnvalda greindi frá yfirlýsingunni þar sem segir ennfremur að fundurinn hefði opnað á þjóðarsátt og samstöðu, frið og farsæld.

Leiðtogarnir undirritðu skjal á fundinum þar sem staðfest er sameiginlegt markmið ríkjanna tveggja að Kóreuskaginn verði laus við kjarnorkuvopn. Fram kemur í frétt AFP að orðalagið sé hins vegar diplómatískt og fyrir vikið opið fyrir túlkun af hálfu beggja aðila. Þar segir ennfremur að ráðamenn í Norður-Kóreu hafa lengi viljað sjá herlið Bandaríkjamanna yfirgefa Suður-Kóreu með hervernd þess í krafti kjarnorkuvopna.

Moon Jae-in, forseti Suður-Kóreu, og Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu á …
Moon Jae-in, forseti Suður-Kóreu, og Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu á fundinum í gær. AFP

Stjórnvöld í Norður-Kóreu þvertóku fyrir það um árabil að gefa eftir kjarnorkuvopnabúr sitt á þeim forsendum að það væri þeim nauðsynlegt til þess að verjast mögulegri innrás Bandaríkjamanna. Hins vegar hafa þau nú boðist til þess að hefja viðræður um það í skiptum fyrir skuldbindingar á sviði öryggismála að sögn ráðamanna í Suður-Kóreu. Kim gaf þó engar opinberar yfirlýsingar í þeim efnum á fundinum í gær.

Virðast einlægir í yfirlýsingum sínum

Fram kom einnig í fréttaflutningi KCNA að leiðtogarnir tveir hefðu átt opinská skoðanaskipti um ýmis mál og þar á meðal um mikilvægi þess að tryggja frið á Kóreuskaganum og kjarnorkuafvopnun. Mikil umfjöllun hefur verið í öðrum norðurkóreskum ríkismiðlum samkvæmt frétt AFP og er haft eftir fræðimanninum Yang Moo-jin að það bendi til þess að þarlendir ráðamenn væru einlægir í yfirlýsingum sínum. 

Skilaboð fælust einnig í yfirlýsingunum til stjórnvalda í Bandaríkjunum, að sögn Yang, vegna fyrirhugaðs leiðtogafundar Kim Jong-un og Donalds Trump Bandaríkjaforseta, að boltinn væri núna hjá Bandaríkjamönnum. Bandarískir ráðamenn hafa kallað eftir því að Norður-Kórea fargi öllum kjarnorkuvopnum sínum og að staðfest verði að það hafi verið gert þannig að ekki sé hægt að hefja framleiðslu þeirra á nýjan leik.

AFP

Sérfræðingar segja að hvort til þess komi fari mikið eftir því hvernig fyrirhugaður fundur Kims og Trumps fari. Trump hefur fagnað leiðtogafundi Kóreuríkjanna en bætt því við að tíminn verði að leiða í ljós hver árangur hans verði. Varaði hann við því á blaðamannafundi að ráðamenn í Norður-Kóreu myndu ekki geta leikið á hann. Sagði hann ennfremur að tvö ríki kæmu til greina sem fundarstaður en nefndi þau ekki.

Fram kemur í skjalinu sem leiðtogar Kóreuríkjanna undirrituðu að stefnt sé að því að gengið verði frá friðarsamkomulagi á milli þeirra síðar á þessu ári til þess að ljúka formlega Kóreustríðinu sem fram fór um miðja síðustu öld, en einungis var samið um vopnahlé á sínum tíma. Hins vegar segir í frétt AFP að friðarsamkomulag gæti reynst flókið þar sem bæði ríki geri tilkall til yfirráða yfir öllum Kóreuskaganum.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert