Vísa klerkum úr landi

Sebastian Kurz, kanslari Austurríkis.
Sebastian Kurz, kanslari Austurríkis. AFP

Yfirvöld í Austurríki ætla að vísa nokkrum múslimaklerkum úr landi og loka sjö moskum. Um er að ræða lið í baráttunni gegn því að íslam sé notað í pólitískum tilgangi, segir kanslari Austurríkis, Sebastian Kurz.

Kurz segir að ákveðið hafi verið að grípa til aðgerða í kjölfar rannsóknar trúaryfirvalda á myndum sem teknar voru í mosku, sem nýtur fjárhagsstuðnings frá Tyrkjum, þar sem börn sjást þykjast vera dáin í endurgerð af bardaganum um Gallipoli í fyrri heimstyrjöldinni. 

Hliðruð samfélög, pólitískt íslam og öfgavæðing eiga ekkert erindi í Austurríki, segir Kurz.

Myndirnar voru  birtar í vikuritinu Falter og sýndu unga drengi í búningum í felulitum marsera, hylla og veifa tyrkneskum fánum. Þeir þóttust síðan vera dánir og var líkömum þeirra raðað upp og þeim vafið inn í tyrkneska fána.

Innanríkisráðherra Austurríkis, Herbert Kickl, segir að allt að 60 klerkum verði vísað úr landi og fjölskyldum þeirra. Alls eiga um 150 manns á hættu að missa rétt til þess að dvelja í Austurríki vegna málsins en Kickl hélt blaðamannafund í Vín í morgun.

Að sögn ráðherrans er grunur um að moskurnar hafi brotið reglur sem banni trúarstofnunum að þiggja erlend fjárframlög. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert