Breskir sjóliðar handteknir á Flórída

HMS Queen Elizabeth á fullu stími á Atlantshafi.
HMS Queen Elizabeth á fullu stími á Atlantshafi. Ljósmynd/Wikipedia.org

Sex breskir sjóliðar voru handteknir á Flórída í Bandaríkjunum í vikunni. Mennirnir voru skipverjar flugmóðurskipsins HMS Queen Elizabeth, sem er flaggskip breska flotans. 

Fram kemur á vef BBC, að sjóliðarnir hafi fengið leyfi til að fara í land sem endaði með því að mennirnir urðu ölvaðir, lentu í slagsmálum og köstuðu einnig af sér vatni á almannafæri. 

Lögreglan var kölluð til og hún handtók mennina á miðvikudag og kærði þá fyrir ölvun og óspektir. Fram kemur í bandarískum fjölmiðlum að til að yfirbuga einn sjóliðann, sem reyndi að komast hjá handtöku, hafi lögreglan þurft að beita rafstuðbyssu. 

Breska varnarmálaráðuneytið hefur staðfest að sex sjóliðar hafi verið handteknir, en kveðst ekki geta staðfest hvort þeir hafi þjónað um borð í umræddu flugmóðurskipi eða verið um borð í öðrum skipum sem fylgja því. 

Talsmaður breska sjóhersins segir að málið sé unnið í samvinnu við lögregluyfirvöld á Flórída. Hann vildi að öðru leyti ekki tjá sig frekar um málið, en sagði þó að sjóherinn legði á það mikla áherslu að sjóliðar sýndu ávallt af sér góða hegðun.

Fram kemur í breskum fjölmiðlum að mönnunum hafi verið sleppt á fimmtudaginn og fengu þeir að snúa aftur um borð í skipið. 

Flugmóðurskipið er nýjasta viðbót flotans og kostaði sem samsvarar yfir 430 milljörðum króna. Það fór í sína jómfrúferð 18. ágúst er það sigldi frá Portsmouth á Bretlandi áleiðis til Bandaríkjanna. Skipið, sem vegur 65.000 tonn, kom til hafnar við herstöðina í Mayport á Flórída á miðvikudag. Það verður tekið formlega í notkun sem herskip 2021.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert