Endurskoða fjölmörg barnaverndarmál

Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, en barnaverndarmál í Noregi eru í …
Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, en barnaverndarmál í Noregi eru í uppnámi vegna aðildar geðlæknis sem hefur verið dæmdur fyrir að hlaða niður barnaníði. AFP

Norsk yfirvöld ætla að endurskoða fjölmörg barnaverndarmál í kjölfar þess að geðlæknir, sem hefur gegnt lykilhlutverki í slíkum málum, var dæmdur fyrir að hafa hlaðið niður þúsundum mynda af barnaníði.

Í mörg ár hefur álit læknisins haft úrslitaáhrif á hvort börn hafa verið tekin af heimilum sínum og foreldrar þeirra sviptir forræði. Geðlæknirinn var dæmdur í tæplega tveggja ára fangelsi í héraðsdómi í Ósló í apríl. 

Ákvörðunin um að endurskoða mál sem hann hefur komið að var tekin í kjölfar mikillar umfjöllunar í Noregi eftir að fréttamenn BBC rannsökuðu málið og fjölluðu um það. 

Ein fjölskylda, þar sem tvö yngstu börnin voru tekin í fóstur í kjölfar íhlutunar barnageðlæknisins, hefur sameinast að nýju eftir að mál hennar var tekið fyrir hjá dómstólnum. Saga hennar er ein þeirra sem fjallað var um á BBC.

Barnaverndarstofa Noregs liggur undir miklu ámæli vegna málanna, einkum af hálfu foreldra og sérfræðinga í málefnum barna, sem segja að börn séu oft tekin af heimilum sínum og send í fóstur án fullnægjandi réttlætingar. 

Geðlæknirinn, sem er á sextugsaldri, játaði að hafa hlaðið niður tæplega 200 þúsund myndum og yfir 12 þúsund myndskeiðum sem sýndu barnaníð. Má þar nefna myndskeið þar sem smábörnum er nauðgað af fullorðnum körlum.

Geðlæknirinn hefur áfrýjað dómnum og segist hafa verið að horfa á myndefni af þessu tagi í tvo áratugi. 

Inez Arnesen, átta barna móðir og sveitarstjórnarmanneskja í Tønsberg í Suður-Noregi, er ánægð með að mál sem geðlæknirinn kom að séu endurskoðuð en endurskoðunin verði að vera í höndum utanaðkomandi aðila.

Fjögur barna hennar voru tekin af heimilinu og send í fóstur árið 2013 eftir að hún var sökuð um að hafa beitt þau líkamlegu ofbeldi. Þremur árum síðar var hún sýknuð af ásökunum fyrir héraðsdómi. Tvö barna hennar fengu þá að snúa aftur heim en ekki þau tvö yngstu. Þau hafa nýlega fengið að koma til fjölskyldunnar að nýju eftir fimm ára dvöl á fósturheimili.

Sonur hennar, Christian, 11 ára og dóttir, Vendela,  sem er 12 ára, eru nú komin á heimilið til systkina og foreldra en Inez segir að málinu sé hvergi nærri lokið. Fjölskyldan þurfi áfram að vera undir eftirliti barnaverndaryfirvalda sem henni finnist skrýtið miðað við allt sem á undan er gengið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert