Kemst Kavanaugh áfram?

Brett Kavanaugh fyrir dómsmálanefndinni í gær.
Brett Kavanaugh fyrir dómsmálanefndinni í gær. AFP

Fulltrúar í dómsmálanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings greiða atkvæði klukkan 17:30 að íslenskum tíma um tilnefningu Brett Kavanaugh sem Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur tilnefnt í Hæstarétt Bandaríkjanna. Verði tilnefningin samþykkt mun öldungadeild Bandaríkjaþings greiða atkvæði um hana í næstu viku.

Líkur þykja hafa aukist á því að dómsmálanefndin leggi blessun sína yfir tilnefninguna í kjölfar þess að þingmaðurinn Jeff Flake, sem á sæti í öldungadeildinni fyrir Repúblikanaflokkinn, lýsti því yfir að hann ætli að styðja tilnefninguna, en Flake hefur verið gagnrýninn á Trump og var talið að hann gæti mögulega greitt atkvæði gegn henni.

Þrjár konur hafa stigið fram og sakað Kavanaugh um kynferðisofbeldi. Tvær gagnvart þeim sjálfum en sú þriðja segist hafa orðið vitni að slíkri hegðun af hans hálfu. Meint brot áttu sér stað þegar Kavanaugh var í miðskóla og þegar hann stundaði nám við Yale-háskóla á níunda áratug síðustu aldar. Hann hefur hafnað ásökununum.

Öldungadeildarþingmaðurinn Jeff Flake.
Öldungadeildarþingmaðurinn Jeff Flake. AFP

Ein af konunum, Christine Blasey Ford, bar vitni fyrir dómsmálanefndinni í gær. Að hennar sögn lokaði Kavanaugh og annar drengur hana inni í herbergi í partíi og reyndi að koma fram vilja sínum. Deborah Ramirez segir hann hafa berað sig fyrir framan hana og fengið hana síðan til þess að snerta sig í patríi nokkrum árum síðar.

Þriðja konan, Julie Swetnick, segir Kavanaugh hafa beitt konur kynferðislegri áreitni í partíum þegar hann stundaði nám við Yale-háskóla. Kavanaugh hefur ítrekað vísað fullyrðingum kvennanna á bug, þær séu rangar og engar sannanir séu fyrir þeim. Trump hefur ítrekað lýst yfir stuðningi sínum við Kavanaugh.

Með tilnefningu Kavanaugh getur Trump tryggt að meirihluti dómara við Hæstarétt Bandaríkjanna verði áfram íhaldsmenn í kjölfar þess að Anthony Kennedy settist í helgan stein en eins og staðan er í dag eru þar fjórir dómarar skipaðir af forsetum úr Repúblikanaflokknum og fjórir forsetum úr Demókrataflokknum. 

Verði tilnefning Kavanaughs samþykkt í dómsmálanefndinni fer málið, sem fyrr segir, til öldungadeildarinnar en þar eru repúblikanar með 51 atkvæði gegn 49. 

Christine Blasey Ford á fundi dómsmálanefndarinnar í gær.
Christine Blasey Ford á fundi dómsmálanefndarinnar í gær. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert