May og Johnson takast á

AFP

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, segir að þeir sem styðja ekki áætlun hennar um útgöngu Breta úr sambandinu, sem er kennd við sveitasetur forsætisráðherra, Chequers, eru í pólitískum hráskinnaleik um framtíð Bretlands. Ítarlegt viðtal er við May í sunnudagsútgáfu Times í dag. Þar ítrekar hún að áætlunin sé sú eina raunhæfa í málinu og að hún eigi margt eftir ógert í embætti forsætisráðherra. 

Forsætisráðherra Bretlands,Theresa May.
Forsætisráðherra Bretlands,Theresa May. AFP

Viðtalið er birt fyrir fyrirhugaðan landsfund Íhaldsflokksins sem hefst í Birmingham á þriðjudag. Hún segir við Sunday Times að til standi að leggja aukna skatta á útlendinga sem kaupa fasteignir í Bretlandi auk fleiri hugmynda sem uppi eru innan ríkisstjórnarinnar. 

Á vef Telegraph er rætt við David Davis sem sagði af sér ráðherraembætti í júlí og hefur hingað til lítið gagnrýnt May og hvernig hún hefur persónulega staðið að viðræðum við ESB. Í viðtalinu við Telegraph gagnrýnir hann ýmislegt sem betur mætti fara undir hennar stjórn varðandi Brexit en Davis gegndi embætti ráðherra Brexitmála. 

May segir að Chequers-markmiðin væru eina raunhæfa leiðin til að tryggja „núningslaus“ viðskipti milli Norður-Írlands og Írlands eftir útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu. Hún hefur hafnað tillögum Brexitsinna úr röðum þingmanna Íhaldsflokksins sem segja að hægt verði að koma í veg fyrir „hörð landamæri“ milli Írlands og Norður-Írlands með því m.a. að nota tæknilegar lausnir við tollgæsluna og breyta viðskiptafyrirkomulaginu sem er nú þegar til staðar. „Margar af þessum öðru lausnum byggjast á því að flytja landamærin,“ sagði forsætisráðherrann. „Við leysum ekki deiluna um hörð landamæri með því að hafa hörð landamæri 20 km inni á Norður-Írlandi, eða 20 km inni á Írlandi.“

Í viðtalinu við Sunday Times segir May að eina tilboðið sem sé uppi á borðinu sé Chequers áætlunin og hvetur ESB til þes að koma með tilboð á móti. 

Boris Johnson.
Boris Johnson. AFP

Í sama blaði er viðtal við Boris Johnson, fyrrverandi utanríkisráðherra, þar sem hann leggur fram stefnuskrá sína um hvernig Íhaldsflokkurinn geti farið með sigur af hólmi í næstu kosningum. 

Segir Johnson að ríkisstjórnin verði að hætta að elta allt sem Jeremy Corbyn geri ef ætlunin sé að hafa betur í baráttunni við Verkamannaflokkinn. Íhaldsflokkurinn þurfi að skapa sér sérstöðu.

Telegraph

Sunday Times

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert