Rússar efla kafbátaflota sinn

James Foggo flotaforingi á blaðamannafundinum í gær.
James Foggo flotaforingi á blaðamannafundinum í gær. AFP

Ráðamenn í Rússlandi vinna að því að efla kafbátaflota sinn með það fyrir augum að ögra bandaríska flotanum á Atlantshafi og Miðjarðarhafinu. Þetta sagði bandaríski flotaforinginn James Foggo við blaðamenn í bandaríska varnarmálaráðuneytinu í gær, en hann er jafnframt yfirmaður stjórnstöðvar NATO í borginni Napólí á Ítalíu.

Foggo sagði ennfremur samkvæmt frétt AFP að Rússar hefðu lagt mikla fjármuni í að byggja upp kafbátaflotann. Rússnesk stjórnvöld væru meðvituð um það að þau gætu ekki keppt við Bandaríkin þegar kæmi að flugmóðurskipu og öðrum ofansjávarskipum og hefðu því lagt aukna áherslu á fjárfestingu í þróun á kafbátaflotanum.

Flotaforinginn sagði Rússa þegar hafa á að skipa sex árásarkafbátum af gerðinni Kilo í Svartahafi og austanverðu Miðjarðarhafi. Spurður hvort bandaríski sjóherinn vissi nákvæmlega hvar kafbátar Rússa væru staðsettir á hverjum tíma sagðist Foggo, sem var eitt sinn kafbátaforingi, ekki geta farið nánar úr í það.

„Ég get sagt ykkur að við höfum hljóðeðlisfræðilegt forskot og við munum gera það áfram,“ sagði flotaforinginn og vísaði til tækni sem gerir það mögulegt að fylgjast með kafbátum neðansjávar. Foggo sagði áhyggjuefni að rússneskir kafbátar gætu skotið Kalibr-flugskeytum sem næðu til hvaða evrópskrar höfuðborgar sem væri.

Þá ræddi flotaforinginn um fyrirhugaða NATO-æfingar í Noregi sem verða þær stærstu frá lokum kalda stríðsins. Markmið æfinganna er að þjálfa hermenn í því að hrinda árás óvinar sem kæmi inn yfir landamæri NATO-þjóðar að sögn hans. Í þeim fælist mikill fælingarmáttur.

Rússneskur kafbátur af Kilo-gerð.
Rússneskur kafbátur af Kilo-gerð. Ljósmynd/Wikipedia.org
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert