Forsetanum mjög brugðið

Khalida Popal.
Khalida Popal.

Forseti Afganistan, Ashraf Ghani, heitir því að láta rannsaka ásakanir um kynferðislega áreitni í garð landsliðs kvenna í knattspyrnu. Ghani segir að sér sé mjög brugðið og bregðast þurfi strax við.

Guardian greindi nýverið frá ásökunum um að knattspyrnukonurnar hafi orðið fyrir kynferðisofbeldi og öðru líkamlegu ofbeldi af hálfu yfirmanna innan knattspyrnusambandsins. Þar á meðal af hálfu forseta sambandsins.

„Þetta er áfall fyrir afgönsku þjóðina. Öll ósæmileg hegðun gagnvart íþróttafólki, körlum og konum, er óásættanleg,“ segir Ghani en hann átti fund með ríkissaksóknara vegna málsins.

Hann segir að hann hafi óskað eftir því við saksóknara að málið verði rannsakað strax.

Guardian greindi frá því að ofbeldið hafi átt sér stað í Afganistan, þar á meðal höfuðstöðvum knattspyrnusambandsins og í þjálfunarbúðum í Jórdaníu í febrúar.

Meðal þeirra sem greindu frá ofbeldinu er fyrrverandi fyrirliði landsliðs Afganistan í knattspyrnu, Khalida Popal, en hún flúði land eftir að hafa fengið líflátshótanir í kjölfar þess að hafa rætt um mismunun kynjanna í landinu.

Sayed Alireza Aqazada.
Sayed Alireza Aqazada. AFP

Forseti knattspyrnusambandsins, Sayed Alireza Aqazada, reyndi að gera lítið úr ásökunum um helgina og sagði þær ósannar. Hins vegar segir forseti ólympíusambandsins, Hafizullah Wali Rahimi, að slíkar ásakanir séu ekki nýjar af nálinni. Slíkt ofbeldi af hálfu sambandsins, þjálfara og íþróttamanna í garð kvenna hafi alltaf verið til staðar. Kvartað hafi verið ítrekað yfir þessu og það sé einfaldlega ekki hægt að neita staðreyndum sem þessum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert