Forseti Mexíkó selur flugvélina

Forsetavélin er af gerðinni Boeing 787-8. Hún verður nú sett …
Forsetavélin er af gerðinni Boeing 787-8. Hún verður nú sett á sölu. AFP

Þrír dagar eru síðan forseti Mexíkó, Andrés Manuel López Obrador, tók við embætti. Og hann hefur þegar tekið til við að koma kosningaloforðum sínum í framkvæmd. Í kosningabaráttunni hét hinn vinstrisinnaði Obrador að selja forsetaflugvélina, vél af gerðinni Boeing 787-8 Dreamliner TP-01, og nota andvirðið til að styðja við fátæk samfélög í landinu.

„Ég mun ekki fara um borð í forsetavélina. Ég myndi skammast mín. Ég myndi skammast mín gríðarlega ef ég færi um borð í slíka lúxusflugvél í landi þar sem finna má svo mikla fátækt,“ sagði Obrador í september.

Og hann hefur nú þegar staðið við orð sín. Á öðrum degi í embætti flaug Obrador í áætlunarflugi innanlands. Hann beið í röð á flugvellinum rétt eins og hver annar borgari og flaug svo á almennu farrými. Í gær var vélinni svo flogið á ákveðinn flugvöll þar sem hún verður verðmetin og svo boðin til sölu, að því er segir í fréttatilkynningu frá fjármálaráðuneytinu.

Forsetavélin var keypt árið 2012 fyrir 219 milljónir Bandaríkjadala sem eru rúmlega 26 milljarðar króna á gengi dagsins í dag. Kaupin voru harðlega gagnrýnd en þáverandi forseti sagðist hafa komist að því að mexíkóska ríkið myndi tapa miklum fjármunum ef það seldi vélina. Forsetavélin var ekki tekin í notkun fyrr en árið 2016.

Vélin er útbúin miklum þægindum, svo sem leðursætum, tvíbreiðu rúmi og baðherbergi með sturtu. 

Frétt CNN um málið

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert