Ver aðgerðaleysi vegna gagnaleka

Persónuupplýsingum hundraða þýskra stjórnmálamanna var lekið á netið í desember.
Persónuupplýsingum hundraða þýskra stjórnmálamanna var lekið á netið í desember. AFP

Alríkisstofnun upplýsingaöryggis Þýskalands (BSI) heldur uppi vörnum eftir að í ljós kom að starfsmenn stofnunarinnar vissu af stórum gagnaleka í margar vikur án þess að láta lögregluyfirvöld vita. Forstjóri BSI segir að stofnunin hafi ekki áttað sig á umfangi lekans fyrr en á fimmtudag.

BBC greinir frá þessu.

Stofnunin hefur fengið á sig harða gagnrýni fyrir að hafa vitað af gagnalekanum síðan í byrjun desember án þess að láta lögreglu vita. Þess í stað var sett af stað rannsókn og rætt var við nokkur fórnarlömb gagnalekans.

Nú segir forstjóri BSI, Arne Schoenbohm, hins vegar að stofnunin hafi einungis vitað af fimm einstökum tilvikum gagnaleka en hafi ekki áttað sig á um að væri að ræða kerfisbundna netárás eða gagnaleka fyrr en síðastliðinn fimmtudag.

Þingmaðurinn Dietmar Bartsch sagði leyndarhyggju BSI vera „algjörlega óásættanlega“ og spurði hvort stofnunin hefði eitthvað að fela.

Per­sónu­upp­lýs­ing­um hundraða þýskra stjórn­mála­manna var lekið á netið í sein­asta mánuði í formi aðventu­da­ga­tals. Meðal fórn­ar­lamba er Ang­ela Merkel, kansl­ari Þýska­lands, og aðrir stjórn­mála­menn. Þá var árás­inni einnig beint gegn fjöl­miðlamönn­um og tón­listar­fólki.

Enn er á huldu hver stóð á bak við gagnalek­ann, en upp­lýs­inga­ör­ygg­is­ráðuneyti Þýska­lands rann­sak­ar málið. Twitter-reikn­ingn­um sem birti upp­lýs­ing­arn­ar hef­ur verið eytt en 17 þúsund manns fylgdu hon­um.

Inn­an­rík­is­ráðherra seg­ir að eng­in sönn­un­ar­gögn séu til staðar um að netör­yggis­kerfi rík­is­stjórn­ar­inn­ar eða þings­ins hafi verið hakkað og ekki sé enn ljóst hvort það hafi verið gert eða hvort gagnalek­inn komi frá inn­an­búðarmann­eskju.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert