Vissu af lekanum í margar vikur

Meðal fórn­ar­lamba er Ang­ela Merkel, kansl­ari Þýska­lands, og aðrir stjórn­mála­menn.
Meðal fórn­ar­lamba er Ang­ela Merkel, kansl­ari Þýska­lands, og aðrir stjórn­mála­menn. AFP

Þýsk netöryggisyfirvöld eru nú gagnrýnd harðlega eftir að í ljós kom að starfsmenn þar á bæ vissu af stórum gagnaleka sem náði meðal annars til hundraða þýskra stjórnmálamanna í fleiri vikur en létu lögregluyfirvöld ekki vita. Fréttavefur BBC greinir frá þessu.

Persónuupplýsingum hundraða þýskra stjórnmálamanna var lekið á netið í seinasta mánuði í formi aðventudagatals. Meðal fórnarlamba er Angela Merkel, kanslari Þýskalands, og aðrir stjórnmálamenn. Þá var árásinni einnig beint gegn fjölmiðlamönnum og tónlistarfólki.

Enn er á huldu hver stóð á bak við gagnalekann, en upplýsingaöryggisráðuneyti Þýskalands rannsakar málið. Twitter-reikningnum sem birti upplýsingarnar hefur verið eytt en 17 þúsund manns fylgdu honum.

Hér birtust upplýsingarnar sem stolið var, en þessum Twitter-aðgangi hefur …
Hér birtust upplýsingarnar sem stolið var, en þessum Twitter-aðgangi hefur síðan verið eytt. AFP

Innanríkisráðherra segir að engin sönnunargögn séu til staðar um að netöryggiskerfi ríkisstjórnarinnar eða þingsins hafi verið hakkað og ekki sé enn ljóst hvort það hafi verið gert eða hvort gagnalekinn komi frá innanbúðarmanneskju.

Alríkisstofnun upplýsingaöryggis Þýskalands (BSI) er talin hafa vitað af lekanum síðan í desember en létu lögregluyfirvöld ekki vita fyrr en í gær, segir í þýskum fjölmiðlum.

Forstjóri stofnunarinnar, Arne Schoenbohm, tjáði sig í gær og sagði að stofnunin hefði átt samtöl við fórnarlömb lekans snemma í desember og hefði sett af stað sérstaka rannsókn vegna málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert