Boðar aðgerðir til að bregðast við straumi hælisleitenda

Simon Harris, forsætisráðherra Írlands, hyggst grípa til aðgerða vegna stöðunnar …
Simon Harris, forsætisráðherra Írlands, hyggst grípa til aðgerða vegna stöðunnar sem uppi er. AFP

Simon Harris, forsætisráðherra Írlands, segir að gripið verði til aðgerða til að stemma stigu við straumi hælisleitenda sem komi til landsins frá Norður-Írlandi.

Helen McEntee, dómsmálaráðherra Írlands, segir að um það bil 80% hælisleitenda sem sækja um hæli í Írlandi hafi komið til landsins yfir landamærin við Norður-Írland.

Virki sem fælingarmáttur

Rishi Sunak, forsætisráðherra Bretlands, segir þetta vera sönnun um að fyrirætlanir þarlendra stjórnvalda um að senda hælisleitendur til Rúanda væru að virka sem fælingarmáttur.

Breska þingið samþykkti í síðustu viku umdeilt frumvarp Sunak þess efnis að heimila stjórnvöldum að senda hælisleitendur til Rúanda. Talið er að um 52 þúsund manns verði sendir til Rúanda vegna lagabreytinganna.

Kynna lagabreytingar á þriðjudag

Harris svaraði ummælum Sunak og áréttaði að öll ríki hafi rétt á að hafa eigin stefnu í hælisleitendamálum. „En ég ætla svo sannarlega ekki að leyfa fólksflutningastefnu annarra ríkja að hafa áhrif á okkar eigin.“

Hann segir McEntee munu kynna lagabreytingar á þriðjudag til að rétta af stefnuna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert