Pólitísk rokkstjarna

Alexandria Ocasio-Cortez.
Alexandria Ocasio-Cortez. AFP

Yngsta þingkona sögunnar í Bandaríkjunum, hin 29 ára gamla Alexandria Ocasio-Cortez, hefur vakið mikla athyli fyrir stefnumál sín. Aðdáendur hennar kalla hana AOC en hún hefur líka eignast marga valdamikla óvini.

Ocasio-Cortez vann pólitískt afrek þegar hún sigraði sitjandi demókrata, áhrifamikinn í þokkabót, Joseph Crowley. Þegar hún vann síðan sigur á andstæðingi sínum, repúblikananum Anthony Pappas, varð hún yngsta konan sem hefur verið kosin á þing í Bandaríkjunum, 29 ára gömul. Hún vann með 78% atkvæða. Aðeins ári fyrr vann hún sem barþjónn. Hún er í kjölfarið orðin einhvers konar pólitísk rokkstjarna og biður fólk hana um sjálfur með sér hvert sem hún fer.

Ocasio-Cortez lýsir sjálfri sér sem Bronx-stelpu ættaðri frá Puerto Rico en frá því að hún var kosin í New York í nóvember hefur hún orðið fyrir barðinu á gagnrýni frá íhaldsfólki og ekki síður öfgahægrihópum.

Ruglað við nema

Hún hefur verið gagnrýnd fyrir fötin sem hún klæðist, ekki síst þegar hún fór í myndatöku fyrir blaðaviðtal í tímaritinu Interview í tískufötum sem voru í láni fyrir tökuna.

Eddie Scarry, blaðamaður hjá íhaldssama blaðinu Washington Examiner, deildi mynd af henni í svörtum aðsniðnum jakka þar sem hún gekk um ganga þingsins með kápu í hönd. Í tístinu sagði hann að þessi jakki og kápa virtust ekki tilheyra konu sem væri í peningavandræðum.
Margir svöruðu þessu á þann hátt að það væri alveg mögulegt að vera ágætlega klæddur og vera á sama tíma málsvari verkamanna í landinu.

Ungir mótmælendur láta taka mynd af sér með Ocasio-Cortez í …
Ungir mótmælendur láta taka mynd af sér með Ocasio-Cortez í kvenréttindagöngu í Washington. AFP

Ocasio-Cortez vakti síðan athygli þegar hún klæddist hvítu til að heiðra kvenréttindakonur og frumkvöðla úr hópi kvenna í stjórnmálum þegar hún sór embættiseið.

Þegar hún fór fyrst á þingið á kynningarfundi fyrir verðandi þingmenn var henni ruglað saman við nema að störfum eða stundum eiginkonu nýs þingmanns.

Mest af gagnrýninni sem hún hefur mætt tengist einmitt því að hún falli ekki að ímyndinni um dæmigerðan þingmann, passi ekki alveg inn.

Kynnar Fox and Friends gerðu grín að henni fyrir að segja að hún hefði ekki efni á íbúð í Washington áður en hún fengi útborgað og efuðust um að hún ætti ekki fyrir útborgun.
Hún hefur líka sætt gagnrýni úr eigin flokki eins og frá þá starfandi þingmanninum Claire McCaskill frá Missouri. Hún kallaði hana „skínandi nýjan grip“ og sagðist ekki skilja vinsældir hennar. Ocasio-Cortez sagðist vera mjög svekkt yfir þessum ummælum en benti á að málflutningur McCaskill hefði ekki hlotið hljómgrunn og hún væri á leið úr embætti.

600% fjölgun fylgjenda

Það er greinilegt að boðskapur hennar hefur hljómgrunn hjá mörgum en fylgjendum hennar á Twitter hefur fjölgað um 600% frá því í júní. Hún er með 3,1 milljón fylgjendur á samfélagsmiðlinum, meira en Nancy Pelosi, leiðtogi demókrata í fulltrúadeildinni, sem er með 2,3 milljónir og er rétt á eftir Joe Biden, með 3,3 milljónir. Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur samt vinninginn með 58,2 milljónir.

Alexandria Ocasio-Cortez.
Alexandria Ocasio-Cortez. AFP

Þingmaðurinn er ekki aðeins virkur á Twitter en hún hefur strax vakið mikla athygli á þinginu. Hún telst til vinstrisinnaðra demókrata og hafa hugmyndir hennar farið hátt, sem er væntanlega ástæða þess að andstæðingum hennar fjölgar en þeir virðast hræðast róttækar hugmyndir hennar. Hún vill setja 70% hátekjuskatt á árstekjur hærri en 10 milljónir dala en þessi hugmynd hefur vakið mikið umtal. Hún vill enn fremur m.a. tryggja aðgengi að niðurgreiddri heilbrigðisþjónustu fyrir alla og tryggja fæðingarorlof. Hún var að leggja fram á þinginu tillögu sem kallst „Green New Deal“, stefnu sem á að tryggja grænni framtíð, skapa störf og takast á við ójöfnuð í landinu. Tíminn leiðir síðan í ljós hvernig henni tekst að framfylgja stefnumálum sínum.

Fjallað er um þingkonuna í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.
Fjallað er um þingkonuna í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert