2.700 vatnslítrar í einn stuttermabol

Föt þurrkuð eftir litun í verksmiðju í Pakistan.
Föt þurrkuð eftir litun í verksmiðju í Pakistan. AFP

Fataframleiðsla er ein helsta uppspretta mengunar í heiminum. Angar þessa umfangsmikla iðnaðar hafa heilsuspillandi áhrif á menn og oft neikvæðar afleiðingar á lífríkið. Efni er finna má í fötum sem seld eru í tískuverslunum geta valdið dýrum skaða og jafnvel drepið þau. Og hér er ekki verið að tala um loðdýrafeldi.

Tískuiðnaðurinn skapar tugþúsundir starfa um allan heim og veltir milljörðum á milljarða ofan. En frá framleiðslunni streyma gróðurhúsalofttegundir, líklega í jafn miklu magni og frá öllum flugvélaflota heims. Hér er við vanda að etja sem neytendur geta haft mikil áhrif á – bæði til góðs og ills. Meðvitund um hvaðan efni fata koma, hver saumar og hvar þau eru saumuð og hversu oft þau eru notuð er þar lykilatriði. Svo virðist sem hún sé að kvikna, sérstaklega hjá yngra fólki, helstu neytendum framtíðar.

Greinin heldur áfram fyrir neðan færsluna.

View this post on Instagram

The fast fashion industry is one of the world’s biggest polluters. How can we look towards a more sustainable future?

A post shared by BBC Earth (@bbcearth) on Feb 20, 2019 at 7:32am PST

Það kann að koma Íslendingum á óvart, sem eru jafnan duglegir við að gefa föt sem þeir eru hættir að nota, að innan við 1% allra klæða sem framleidd eru í heiminum eru endurunnin og öðlast framhaldslíf sem nýjar flíkur. Allt of margir nota auk þess stóran hluta fata sem þeir kaupa aðeins örsjaldan. Svo fara þau einfaldlega á haugana.

Á síðustu áratugum hafa sprottið upp fjölmargar verslunarkeðjur á Vesturlöndum sem selja ódýran tískufatnað sem oft og tíðum er framleiddur í fátækum löndum, fjarri þeim stöðum sem hann er svo seldur á. Þetta er gert svo hægt sé að koma honum fljótt í framleiðslu, eftir því hvernig tískuvindar blása, og selja hann svo ódýrt.

Fjölmiðlar hafa undanfarin ár flett ofan af hvað gerist á bak við tjöldin í framleiðslu þessara fata; þar vinnur fólk oft við óboðlegar og jafnvel hættulegar aðstæður. Framboð af fatnaði er gríðarlegt og þessi hluti iðnaðarins, sem er stór í flíkum talið, hefur orðið til þess að fólk kaupir mikið af fötum og oft og notar þau svo sárasjaldan.

Farið í gegnum föt sem koma til endurvinnslu í Frakklandi.
Farið í gegnum föt sem koma til endurvinnslu í Frakklandi. AFP

Einhver merki eru um að hægt hafi á vexti framleiðslu ódýrra tískuflíka, framleiðslu sem á ensku er kölluð „fast fashion“ og þýða mætti sem „einnotatísku“. Í það minnsta eru teikn á lofti um að sá markaður sé að breytast þótt hægt þokist í átt að sjálfbærni.

En aftur að þeirri staðreynd að aðeins 1% fata sem framleidd eru í heiminum í dag öðlast framhaldslíf í formi nýrra flíka. Það gefur auga leið að gríðarlegu magni er því hent og oft er það notað í landfyllingar.

Breskir þingmenn hafa af þessum sökum lagt til að þeir sem framleiða og selja föt verði látnir greiða 1 penní, um 1,5 krónur, fyrir hverja flík sem seld er svo fjármagna megi endurvinnslu og förgun þar í landi. Í nýrri skýrslu benda þeir á þá staðreynd að vegna „einnotatísku“ losni gríðarlegt magn gróðurhúsalofttegunda. Sú framleiðsla sé bæði sérlega vatns- og loftmengandi og valdi auk þess ofnotkun á vatni sem sé vandamál í þeim fátæku löndum þar sem klæðin eru framleidd.

Til framleiðslu á fatnaði þarf nefnilega gríðarlegt magn ferskvatns. Í ferlinu sem og við flutning fata heimshorna á milli verða einnig til eiturefni sem skaðleg eru fyrir umhverfið. Þá fellur til mikið magn plasts og eins og allir ættu að þekkja hafa síðustu misseri fundist agnir af plasti í mögum djúpsjávardýra.

Það er því skoðun þingmannanna að stjórnvöld ættu að láta framleiðendur fata borga meira fyrir að safna og endurvinna úrgang sem þeir skapa.

Aðeins um 1% allra klæða sem framleidd eru í heiminum …
Aðeins um 1% allra klæða sem framleidd eru í heiminum er endurunnið og fær framhaldslíf í formi nýrra fata. Hér má sjá stæður af notuðum fötum í endurvinnslustöð í Frakklandi. AFP

Talsmenn náttúruverndarsamtaka segja þessar tillögur þingmannanna í raun hógværar. Þeir vilja ganga lengra og að hömlur verði settar á ofneyslu á fötum. Libby Peake, hjá hugsmiðjunni Green Alliance, segir í samtali við BBC að fólk á Vesturlöndum, sem nú hugi í ríkara mæli að umhverfinu og kolefnisfótspori sínu, gæti haft mikil áhrif með því að draga úr fatakaupum og nota fötin sem það kaupir lengur. Þegar fatanna er ekki lengur óskað ætti svo að gefa þau til góðgerðarfélaga sem koma þeim áfram til nýrra eigenda.

Fyrirtæki í þessum iðnaði hafa sum hver vaknað til vitundar, ekki síst þar sem neytendur eru farnir að spyrja þau spurninga. Má þar nefna Marks & Spencer á Bretlandseyjum sem ýtt hefur úr vör verkefninu „Plan A“. Með því fá viðskiptavinir inneign er þeir skila gömlum fötum frá verslunarkeðjunni. Fleiri verslanir hafa fetað þessa leið. Aðrar fara þá leið að bjóða fatnað úr endurunnum efnum. Þannig hefur íþróttavöruframleiðandinn Adidas, svo dæmi sé tekið, greint frá því að aðeins verði notað endurunnið pólýester í framleiðslu á skóm og fatnaði frá og með árinu 2024. Fyrirtækið Bottletop ætlar svo í samstarfi við lúxusmerkið Mulberry að framleiða handtöskur sem alfarið eru framleiddar úr endurunnum efnum.

Saumakona í Kína. Föt eru oft framleidd í ríkjum fjarri …
Saumakona í Kína. Föt eru oft framleidd í ríkjum fjarri þeim stöðum sem þau eru svo seld á. AFP

Í skýrslu bresku þingmannanna segir að það sé opinbert leyndarmál að framleiðendur tískufata í borgum á borð við Leicester greiði ekki lágmarkslaun og að fötin sem þeir framleiði séu svo ódýr að neytendur líti á þau sem einnota. Mary Creagh, formaður þingmannanefndarinnar, leggur til að reynt verði að útrýma hinni mest mengandi fataframleiðslu og veita fyrirtækjum sem hafa sjálfbærni að leiðarljósi og þeim sem gera við notuð föt ívilnanir.

„Það á að kenna börnum í skólum að búa til og bæta notuð föt. Við verðum að hjálpa táningum að bindast fötum sínum í stað þess að klæðast þeim aðeins nokkrum sinnum, taka mynd af sér í þeim og birta á Instagram og henda þeim svo. Allir neytendur verða að sætta sig við að þurfa að kaupa færri flíkur, að laga þær ef þær slitna, leigja þær út eða deila þeim með öðrum.“

Í Bretlandi var reynt að fara þá leið að láta frumkvæðið koma frá fyrirtækjunum sjálfum og þeim boðið að staðfesta sáttmála um að draga úr notkun vatns, minnka úrgang og kolefnisspor. Aðeins ellefu tískufataframleiðendur skrifuðu undir svo sú aðgerð misheppnaðist. Því er það mat þingmannanefndarinnar að stjórnvöld verði að grípa í taumana og setja ramma sem hvetji fyrirtæki til að draga úr mengun og til endurvinnslu á fatnaði.

Fólk þarf að verða meðvitaðra um umhverfisáhrif fataframleiðslu og sætta …
Fólk þarf að verða meðvitaðra um umhverfisáhrif fataframleiðslu og sætta sig við að kaupa færri flíkur og nota þær lengur. AFP

En þó að staðan sé nokkuð svört og hafi verið nokkuð lengi án þess að almenningur hafi áttað sig á því, þá er ljós að finna í myrkrinu.

Sophie Gorton, kennari við Chelsea-háskóla og talsmaður sjálfbærrar tísku til margra ára, segir t.d. í grein BBC að margt bendi til þess að breytinga sé að vænta. Áður hafi fataframleiðendur látið sem það kæmi þeim ekki við hvaðan efni til framleiðslunnar kæmu. En nú sé öldin önnur. „Þeir eru skyndilega orðnir áhugasamir um hvernig sjálfbær efni eru gerð og vilja virkilega huga að þessu. Þetta eru spennandi tímar.“

Stórar tískukeðjur á borð við Zara og H&M hafa síðustu árin tekið mikið pláss á markaðnum með ódýran tískufatnað og eru þær stærstu í heiminum. Þar á bæ eru seld ódýr föt og framleiðslukerfin kvik og hröð svo neytandinn gengur fljótt að fötum sem fylgja nýjustu straumum og stefnum. En stöðugleiki er ekki einkunnarorð þessa bransa. H&M ætlar til að mynda að loka 160 verslunum í ár. Í grein í viðskiptablaðinu Forbes eru erfiðleikar í rekstrinum raktir og bent á að árið í fyrra hafi reynst keðjunni erfitt. Hún hafi átt gríðarlegt magn óselds varnings sem hún þurfti að selja með miklum afslætti til að rýma fyrir nýjum vörum. Í hverju ársfjórðungsuppgjöri félagsins á fætur öðru hefur hagnaður dregist saman. Fleiri keðjur sem selja hina svokölluðu „einnotatísku“ eiga í erfiðleikum, m.a. í Bandaríkjunum. Einhverjar þeirra eru nú farnar að líta til þess að sölsa undir sig Asíumarkaði til að halda í horfinu.

Tilraunir til viðbragða

Stórar keðjur sem selja ódýran fatnað hafa reynt að bregðast við aukinni meðvitund neytenda og fetað leið til meiri sjálfbærni. H&M hefur til dæmis tilkynnt að stefnt sé að því að fyrir árið 2030 verði aðeins notuð endurunnin efni eða efni sem vottuð eru sjálfbær til framleiðslunnar. Árið 2040 ætlar félagið vera orðið 100% loftslagsjákvætt (e. climate positive).

Verksmiðjur í Bangladess framleiða fatnað fyrir tískuverslanir á Vesturlöndum í …
Verksmiðjur í Bangladess framleiða fatnað fyrir tískuverslanir á Vesturlöndum í stórum stíl. AFP

En það er það ekki í dag. Eins og sjá mátti í danskri heimildarmynd sem sýnd var í fyrra var töluvert magn fata sem ekki seldist einfaldlega brennt. Forstjóri fyrirtækisins sagði að slík förgun væri „sjaldgæf“. Umhverfissamtökin Green Peace segja þetta athæfi stundað af fataframleiðendum um allan heim.

Blaðamaður Forbes segir að það sé ekkert launungarmál að framleiðendur ódýrs tískufatnaðar hafi valdið miklum umhverfisskaða, stundum stórkostlegum. Fyrir utan margs konar mengun sem framleiðslan valdi eigi þessi geiri sér mjög svo óhugnanlegar og myrkar hliðar. Hann hafi til að mynda ýtt undir mansal og barnaþrælkun, líkt og fram kom nýlegri í heimildarmynd New York Times, Invisible Hands.

Greinin heldur áfram fyrir neðan myndskeiðið.

Allar verslanir þurfa stöðugt að gæta að sér þegar kemur að breyttri neyslu. Ungt fólk í dag er orðið mun meðvitaðra en fyrri kynslóðir um umhverfismál og breytir margt hvert lífsstíl sínum hiklaust í takt við aukna umhverfisvitund.

Ungir neytendur, hin svokallaða þúsaldarkynslóð (e. millenials), vilja vita hvaðan vörur koma. Þeir vilja vita hvert kolefnisfótspor þeirra er, hvaða áhrif framleiðsla varanna hefur á samfélögin þar sem þær eru framleiddar og á alla þætti lífríkisins. Og þeir vilja að þeir sem selji vörurnar, fötin í þessu tilviki, geti upplýst þá um allt þetta. Engan feluleik lengur, takk. Kannanir sýna svo að meirihluti þeirra er líka tilbúinn að greiða hærra verð fyrir vörur sem framleiddar eru með sjálfbærum hætti.

En hvernig hefur hin gríðarmikla fataframleiðsla áhrif á umhverfið?

Tökum nokkur dæmi.

Ásókn í ódýra kasmírull hefur haft áhrif á steppur Mongólíu.

Gresjur Mongólíu, og þar með hirðingjar og margar dýrategundir sem á þeim búa, standa nú höllum fæti vegna ofbeitar. Landgæðin höfðu þegar tekið að rýrna vegna loftslagsbreytinga sem ollu jarðvegsrofi og uppþornun vatna og áa. En á síðustu þremur áratugum hefur fjöldi búfénaðar þrefaldast og hefur sú ofbeit haft gríðarleg áhrif. Orsökin: Spurn markaðarins eftir ódýrri kasmírull. Hún er búin til úr mjúkum hluta geitaullar. Geiturnar, sem fátækir hirðingar sjá hag í að rækta, hafa meiri áhrif á umhverfi sitt en annar búfénaður, s.s. kindur. Mongólía er næststærsti framleiðandi kasmírullar í heiminum.

Hvaðan koma efnin sem eru í fötunum sem þú ert …
Hvaðan koma efnin sem eru í fötunum sem þú ert í? AFP

Annað dæmi: Þvottur á flíspeysunni þinni getur haft áhrif á sjávardýr.

Allir vita að plastmengun í höfunum er risastórt vandamál. Þvottavélar eru ein þeirra leiða sem koma plastögnunum þangað. Þegar föt úr gerviefnum á borð við pólýester, nælon og akríl eru þvegin losna milljónir plastagna sem svo skolast út með vatninu og oftast út í sjó að lokum. Plastagnirnar innihalda eiturefni og geta einnig sogið þau til sín, s.s. úr þvotta-  og mýkingarefnum. Þær safnast svo að lokum upp í lífverum hafsins. Rannsóknir sýna að agnirnar finnast í fjölmörgum sjávardýrum; kröbbum, humri, fiski, skjaldbökum, mörgæsum, selum, rostungum og sæotrum. Þær eyðileggja líffæri þeirra og geta orðið til þess að þau hætti að þroskast og jafnvel svelti til dauða.

Önnur efnisframleiðsla leiðir til skógareyðingar. Þræðir sem notaðir eru til að búa til efni á borð við viscose og rayon eru unnir úr trjám skóga sem sumir hverjir eru í útrýmingarhættu. Neytendur geta því verið að stuðla að skógareyðingu með kaupum á fatnaði. Að þessu leyti skiptir meðvitund neytenda miklu máli því sumir framleiðendur gæta þess að efnin séu framleidd með sjálfbærum hætti. En eins og staðan er í dag er skógareyðing vegna framleiðslu á viscose að eiga sér stað í Indónesíu, Kanada og á Amazon-svæðinu í Suður-Ameríku. Skógarhöggið getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir mikilvæg búsvæði dýra og plantna og eyðing skóganna hefur svo aftur áhrif á loftslagsbreytingar.

3.781 lítri af vatni fer í framleiðslu á bómull til …
3.781 lítri af vatni fer í framleiðslu á bómull til að búa til einar gallabuxur. AFP

Bómull er náttúrulegt efni en það þýðir ekki að það sé framleitt með sjálfbærum hætti. Staðreyndin er sú að ræktun á bómull er ein sú ósjálfbærasta í heiminum í dag. Gríðarlegt magn af vatni er notað til framleiðslunnar sem getur valdið vatnsskorti í nærsamfélögum og á heimsvísu. Það getur þurft allt að 2.700 lítra af vatni til að framleiða einn stuttermabol úr bómull og yfir 3.700 lítra til að gera einar gallabuxur. Þá er miklu magni skordýraeiturs úðað á akrana sem spillir jarðvegs- og vatnsgæðum.

 „Við þurfum að breyta hugarfari okkar,“ segir Clare Farrell, hjá breska umhverfisverndarhópnum Extinction Rebellion. Vissulega sé betra að endurvinna föt en að henda þeim en stóra málið sé að fólk kaupi minna af fötum. Hún bendir á að fataframleiðsla í því magni sem hún er í dag skapi gríðarmikið álag á náttúruauðlindir og hafi skaðleg áhrif á þær. „Krakkar kaupa föt, eru í þeim í nokkur skipti og losa sig svo við þau. Hvernig tökum við á því? Þessi neysluhyggja er mjög, mjög stórt vandamál fyrir okkur öll.“

Greinin er byggð á umfjöllununum BBC (hér og hér), Forbes (hér og hér) auk fleiri fjölmiðla.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert