Tók ítrekaðar dýfur

Brak úr þotu Ethiopian Airlines.
Brak úr þotu Ethiopian Airlines. AFP

Þota Ethiopian Airlines tók ítrekaðar dýfur áður en hún brotlenti og flugmenn hennar fylgdu í þaula leiðbeiningum frá Boeing-flugvélaframleiðandanum, að því er fram kemur í bráðabirgðaskýrslu um flugslysið sem kostaði 157 manns lífið.

Skýrslan var birt í morgun og er hún fyrsta opinbera skýrslan sem birt er um slysið. Að sögn samgöngumálaráðherra Eþíópíu, Dagmawit Moges, gátu flugmennirnir, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir, ekki náð stjórn á þotunni, Boeing 737 Max. Þetta kom fram á blaðamannafundi í Addis Ababa í morgun. 

Í október fórst þota Lion Air, sem einnig var af 737 Max-gerð, og létust allir um borð, alls 189 manns.

Forstjóri Ethiopian Airlines, Tewolde GebreMariam, segir að hann sé afar stoltur af framgöngu flugmannanna sem sýndu fagmennsku en því miður var það ekki á þeirra valdi að ná stjórn á þotunni sem ítrekað tók dýfur.

Moges segir að í skýrslunni sé mælt með því að öryggisbúnaður 737 Max verði endurskoðaður og að flugeftirlitsaðilar verði að staðfesta endurskoðunina áður en Max-þoturnar fara í umferð að nýju. Hún minnist ekki beint á MCAS-kerfið en það tengist hæðarstýri vélarinnar. 

Á vefnum Allt um flug segir að MCAS-kerfið var þróað við hönnunina á Boeing 737 MAX. „MCAS-kerfinu var komið fyrir til að leiðrétta loftflæðilegar breytingar sem urðu á Boeing 737 MAX-þotunni þar sem hreyflar hennar eru bæði þyngri og staðsettir framar á vængnum samanborið við Boeing 737NG sem hefur áhrif á massamiðju vélarinnar og er ætlað að forða flugvélinni frá ofrisi við aukið áfallshorn en áfallshorn eykst á öllum flugvélum til að mynda í flugtaki.

MCAS-kerfið fer í gang þegar sjálfsstýring vélarinnar er ekki virk og vængbörð eru uppi og reiðir MCAS-kerfið sig á upplýsingar sem koma frá áfallshornsskynjurum. Ef skynjararnir greina að nef vélarinnar sé farið að vísa óeðlilega mikið upp á við þá senda þeir boð til MCAS-kerfisins um að leiðrétta með því að ýta hæðarstýrinu niður sem dregur úr halla vélarinnar um þverásinn,“ segir í frétt á vefnum Allt um flug.

Skýrslan beinir enn sjónum og um leið efasemdum á stýrikerfi Boeing 737 Max 8 en flugvélar af þessari tegund hafa verið kyrrsettar í meira en mánuð. 

Flugmálastjórn Bandaríkjanna (FAA)hefur tilkynnt um að vottun kerfisins í 737 Max verði endurskoðuð og er Boeing að fara yfir skýrslu FAA.  

Farþegaþota Ethiopian Airlines var á leið til Nairobi frá Addis Ababa í afar góðu veðri þegar hún brotlenti á akri fyrir utan  Addis Ababa aðeins nokkrum mínútum eftir flugtak 10. mars. Fólk frá 30 löndum var um borð í þotunni. Fljótlega var ljóst að ákveðin líkindi voru með flugslysinu og þegar farþegaþota Lion Air fórst í október en það var einnig  737 Max 8. 

Boeing reynir allt hvað tekur til þess að endurheimta traust almennings í þotunum og birti myndir af forstjóra félagsins um borð í reynsluflugi 737 Max nú fyrir skömmu. Hundruð flugmanna og fréttamanna voru á kynningu Boeing í síðustu viku þar sem breytingarnar á MCAS voru kynntar. Þar á meðal að kerfið reyni ekki lengur að leiðrétta aðgerðir flugmanna þegar þeir reyna að ná stjórn á flugvélinni. 

FAA segir að Boeing verði að leggja meira af mörkum til þess að hægt sé að undirbúa endurskoðun á því hvort 737 Max 8 þotur fá flugheimild að nýju. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert