Óttast hrun í ferðaþjónustunni

Ferðamenn að yfirgefa hótel í Sri Lanka í kjölfar hryðjuverkanna.
Ferðamenn að yfirgefa hótel í Sri Lanka í kjölfar hryðjuverkanna. AFP

Stjórnvöld á Sri Lanka óttast að ferðaþjónusta sem um nokkurt skeið hefur blómstrað í landinu dragist saman um 30% og gjaldeyristekjur um 1,5 milljarða dollara í ár vegna hryðjuverkanna mannskæðu sem gerð voru á páskadag. „Ferðaþjónustan verður verst úti,“ sagði fjármálaráðherrann Mangala Samaraweera við blaðamenn í dag. 

Evrópska ferðaskrifstofan TUI tilkynnti í dag að hún hefði aflýst öllum ferðum til Sri Lanka og að ferðamenn á hennar vegum sem þegar eru á eyjunni fái tjónið bætt. Þeir sem hafi átt bókaða ferð fái hana endurgreidda eða ferð til annars áfangastaðar í staðinn.

Um 350 ferðamenn eru nú á vegum ferðaskrifstofunnar á Sri Lanka. Þeim verður boðið að fljúga fyrr heim en áætlað var.

Sri Lanka er ægifögur eyja. Þangað sækir fólk til að …
Sri Lanka er ægifögur eyja. Þangað sækir fólk til að baða sig í tærum sjónum og skoða sig um í náttúrunni. Af vef Sri Lanka Travel and Tourism

Árásirnar voru gerðar á nokkrum stöðum og kostuðu 253 menn lífið. Flest fórnarlömbin voru Srí Lanka-menn. „Ástandið er eldfimt um allt landið. Það er alltaf hætta á frekari árásum,“ sagði í yfirlýsingu TUI. Sagðist ferðaskrifstofan taka þessa ákvörðun að vel athuguðu máli. Hún hafi ráðfært sig við bæði þýska og breska sérfræðinga hjá utanríkisráðuneytum landanna. 

Ferðamenn á eyjunni eru hvattir til að vera á varðbergi og forðast höfuðborgina Kólombó sé þess einhver kostur. 

Hollensk ferðaskrifstofa, Calamiteitenfonds, tók sambærilega ákvörðun í dag sem mun hafa áhrif á ferðir um 500 ferðamanna á hennar vegum.

Ferðamálaráðherrann Samaraweera telur að það muni taka að minnsta kosti tvö ár að koma ferðaþjónustunni í samt horf aftur. Árásirnar voru m.a. gerðar á þremur hótelum. 

Ríkisstjórn landsins segir öfgafull samtök íslamista bera ábyrgð á tilræðunum. Ríki íslams lýsti yfir ábyrgð en talið er að hryðjuverkahópur á Sri Lanka hafi framkvæmt þær.

Aðeins áratugur er síðan að borgarastyrjöld, sem geisaði í 37 ár, lauk.

Ráðherrann segir að reynsla annarra landa, m.a. Belgíu, Frakklands, Spánar og Túnis, sé sú að séu öryggismálin tekin föstum tökum og ráðist að rót vandans, jafni ferðaþjónustan sig á tiltölulega stuttum tíma. 

Hann sagði að ferðaþjónustan hafi blómstrað sem aldrei fyrr áður en árásirnar voru gerðar. Gjaldeyristekjur hafi aukist hratt vegna hennar og ferðamönnum fjölgað jafnt og þétt, um fleiri prósent á ári. Á fyrstu fjórum mánuðum ársins höfðu 760.600 ferðamenn heimsótt Sri Lanka sem er 4,6% fleiri en á sama tíma í fyrra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka