Sér fram á gjaldþrot eftir árekstur

Robert Hazeldean hefur áhyggjur af því hvaða fordæmi dómur í …
Robert Hazeldean hefur áhyggjur af því hvaða fordæmi dómur í máli hans muni setja fyrir aðra hjólreiðamenn og segir þá berskjaldaða fyrir breska réttarkerfinu.

Hópsöfnun hefur verið hrundið af stað í Bretlandi, til þess að hjálpa hjólreiðamanni að takast á við sligandi málskostnað og miskabætur sem hann sér fram á að þurfa að greiða í kjölfar þess að hann lenti í árekstri við gangandi vegfaranda í miðborg Lundúna sem gekk í veg fyrir hann með augun á snjallsíma sínum, á meðan að maðurinn hjólaði yfir gatnamót á grænu ljósi.

Robert Hazeldean heitir kauði, en hann hjólaði á konu sem heitir Gemma Brushett árið 2015. Síðan þá hefur málið verið rekið fyrir dómstólum og segir Hazeldean að lögfræðingar hans hafi varað hann við því að þegar að upp verði staðið þurfi hann að greiða yfir 100.000 bresk pund vegna málsins, þrátt fyrir að dómari í málinu hafi kveðið upp þann dóm að slysið hefði verið þeim báðum að kenna.

Röksemdir dómarans fyrir því að Hazeldean þyrfti að greiða Brushett skaðabætur vegna málsins voru hins vegar þær að „hjólreiðamenn þyrftu alltaf að vera viðbúnir því að fólk hagi sér með óvæntum hætti“ og bætti því við að hjólreiðamanninum hefði láðst að sýna þá aðgát sem að nokkuð vönum hjólreiðamanni bæri að sýna.

Hjólreiðamenn séu berskjaldaðir í réttarkerfinu

Fram kemur í fréttum Sky og Guardian um málið að Hazeldean hafi hringt bjöllunni á hjóli sínu og gert tilraun til þess að sveigja frá konunni áður en þau skullu saman.

Hann birti yfirlýsingu eftir að dómur féll, þar sem segir að átökin fyrir dómi hafi undanfarin fjögur ár hafi haft mikil áhrif á geðheilsu hans og muni að óbreyttu leiða til þess að hann fari í persónulegt gjaldþrot.

„Ég er að sjálfsögðu afar vonsvikinn með niðurstöðuna,“ segir í yfirlýsingu Hazeldean, sem segist einnig uggandi yfir því hvaða fordæmi dómurinn muni hafa fyrir aðra hjólreiðamenn.

Hann segist vonast til þess að athyglin sem mál hans hafi fengið verði til þess að beina kastljósinu að því hversu berskjaldaðir hjólreiðamenn séu, ekki bara líkamlega á götum úti heldur einnig fyrir réttarkerfinu.

Hazeldean beinir því einnig til annarra hjólreiðamanna að kaupa sérstakar tryggingar til þess að verja sig fyrir fjárhagslegu tjóni, lendi þeir í umferðarslysum sem rati fyrir dómstóla.

Frétt Guardian um málið

Frétt Sky um málið

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert