Rasistaskór eða pólitísk rétthugsun?

Skórnir sem um ræðir skarta Betsy Ross-fánanum svokallaða.
Skórnir sem um ræðir skarta Betsy Ross-fánanum svokallaða. Mynd/Nike

Bandaríski íþróttavöruframleiðandinn Nike tók ákvörðun í gær um að taka úr sölu sérstaka hátíðarútgáfu af Air Max 1 strigaskónum, sem komu út í tilefni af þjóðhátíðardegi Bandaríkjanna, 4. júlí. Sú ákvörðun hefur vakið mikla reiði, hjá sumum. 

Fyrirtækið tók hana eftir að bent var á að gömul útgáfa bandaríska fánans, sem skórinn skartar, hefði síðar meir orðið táknmynd hvítra þjóðernissinna og nasista í Bandaríkjunum.

Á meðal þeirra sem gagnrýndu Nike fyrir strigaskóinn var Colin Kaepernick, ameríski fótboltamaðurinn sem Nike styrkir, þrátt fyrir að deilur hans við eigendur NFL-deildarinnar valdi því að hann sé nú samningslaus.

Um er að ræða hinn svokallaða Betsy Ross-fána, sem er í grunninn ansi svipaður þeim sem nú er notaður, nema einungis með 13 stjörnum sem raðast upp í hring. Stjörnurnar tákna þrettán nýlendur Bandaríkjanna á 18. öld.

Deildar meiningar eru um uppruna fánans og þátt konu að nafni Betsy Ross í að skapa hann, sem má fræðast um í löngu máli á Wikipediu, en hann er af sumum talinn fyrsta útgáfa þess bandaríska fána sem flestir þekkja, með stjörnum og röndum.

En þá aftur að málinu. Nike ákvað að fyrirtækið teldi röksemdir Kaepernick og fleiri aðila eiga rétt á sér og ákvað að taka strigaskóinn úr sölu, einungis degi eftir að hann kom í verslanir.

Matið byggði fyrirtækið á „áhyggjum af því að skórinn gæti, án þess að það væri ætlunin, móðgað og spillt þannig þjóðhátíðardeginum“.

Arizona-ríki dró styrk til baka

Þetta hefur haft nokkrar afleiðingar. Í fyrsta lagi hefur strigaskórinn rokið upp í markaðsvirði á endursölusíðum á netinu, og selst nú á 1.500 dali parið, eða hartnær 190.000 krónur. Í öðru lagi hafa fjölmargir sakað Nike um að hafa látið undan pólitískri rétthugsun.

Einn þeirra er Doug Ducey, ríkisstjóri í Arizona, sem sagði á Twitter-síðu sinni að orð gætu ekki lýst vonbrigðum hans með þessa „hörmulegu ákvörðun“ íþróttavörurisans.

„Ég skammast mín fyrir hönd Nike,“ skrifaði ríkisstjórinn meðal annars, en skrifstofa hans lýsti því svo yfir í dag að Arizona-ríki myndi draga til baka styrk að andvirði ein milljón bandaríkjadala sem hafði verið lofaður Nike, til atvinnuuppbyggingar í ríkinu.

Vilji bara selja skó til þeirra sem hati fánann

Ted Cruz er á meðal þeirra sem eru ekki kátir …
Ted Cruz er á meðal þeirra sem eru ekki kátir með ákvörðun Nike. AFP

Ted Cruz, öldungadeildarþingmaður í Arizona, lýsti Nike sem hálfgerðum föðurlandssvikurum á Twitter-síðu sinni í dag. Hann fyrir fyrirtækið einungis „vilja selja strigaskó til fólks sem hatar bandaríska fánann“.

Telur ólíklegt að málið skaði Nike

Nokkur fjöldi Twitter-notenda lýsir því yfir að þeir ætli að sniðganga Nike vegna ákvörðunarinnar, en markaðssérfræðingur sem rætt er við í frétt BBC um málið, segir að ákvörðunin muni líklega falla í góðan hljómgrunn hjá helstu markhópum Nike.

„Þeir einbeita sér mjög mikið að unglingum og miðað við það sem ég hef séð af skoðunum fólks á Twitter og víðar, þá er ég ekki að sjá að unglingar séu að stíga fram með neikvætt viðhorf hérna,“ segir Matt Powell markaðsráðgjafi við BBC.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert