Dæmd fyrir að ljúga til um nauðgun

Unga konan sem sakaði Ísraelana um að hafa nauðgað sér.
Unga konan sem sakaði Ísraelana um að hafa nauðgað sér. AFP

Ung bresk kona var í dag fundin sek um að hafa logið því til að henni hafi verið nauðgað af hópi ísraelskra ferðamanna á eyjunni Kýpur síðasta sumar. 

Refsingin verður kveðin upp 7. janúar en konan, sem var 19 ára gömul þegar nauðgunin var kærð, á yfir höfði sér allt að árs fangelsisvist og 1.700 evra sekt fyrir lygina. 

AFP

Konan var handtekin eftir að hún dró til baka ásakanir um að 12 ungir Ísraelar hefðu ráðist á sig og nauðgað. Hún hélt því fram að lögreglan á Kýpur hefði neytt hana til þess að segjast hafa logið til um nauðgunina. Lögreglan á Kýpur hefur alltaf neitað því. 

Að sögn saksóknara ritaði hún yfirlýsingu um að hafa logið til um árásina en konan heldur því svo fram að henni hafi verið hótað handtöku ef hún gerði það ekki og eins hafi henni verið neitað um aðstoð lögfræðings. 

AFP

Tólf Ísraelar voru handteknir í tengslum við málið en síðar sleppt. Unga konan var rúmlega mánuð í fangelsi áður en hún var látin laus gegn tryggingu í lok ágúst. Hún hefur hins vegar verið í farbanni síðan þá. Réttarhöldin fóru fram í október en dómurinn var ekki kveðinn upp fyrr en í dag.

Fréttaritari BBC á Kýpur, Kevin Connolly, segir að fjölskylda ungu konunnar hafi eytt jólunum með henni á eyjunni. Fjölskyldan íhugar að fara með málið fyrir Mannréttindadómstól Evrópu. 

Móðir hennar sakar sendiráðsstarfsmenn Bretlands um að hafa brugðist stúlkunni og ekki veitt henni þá aðstoð sem hún hafi átt rétt á. Utanríkisráðuneyti Bretlands segir aftur á móti að hún hafi notið stuðnings og svo verði áfram.

AFP

Unga konan hélt því fram að mennirnir hefðu nauðgað henni á hótelherbergi á ferðamannastaðnum Ayia Napa.

BBC


Við dómsuppkvaðninguna í morgun sagði dómarinn við ungu konuna að hún hafi logið til um nauðgunina. Unga konan virtist vonsvikin yfir því að refsingin skyldi ekki vera lesin upp í réttarsalnum og sagði við verjandann: „Hann hefur þegar tekið ákvörðunina. Ég hélt að við værum að tala um sekt.“

Á annan tug kvenna frá samtökum sem berjast fyrir vernd kvenna mættu við réttarhöldin með hvíta klúta með myndum á af vörum saumuðum saman en lögmenn hennar hafa haldið því fram að hún hafi verið beitt þrýstingi af hálfu lögreglu að skrifa undir yfirlýsinguna. 

Dómarinn sagði aftur á móti að lögreglan hafi sinnt starfi sínu af fagmennsku og ekki reynt að þrýsta konuna um að breyta framburði sínum varðandi nauðgunina aðfararnótt 17. júlí. Ísraelarnir eru á aldrinum 15 til 18 ára og voru allir látnir lausir án ákæru. 

Samtök kvenna hafa krafist þess að rannsakað verði hvernig lögregla stóð að rannsókn málsins og segja afar gagnrýnivert hvernig staðið er að rannsókn nauðgunarmála og meðferð sem þolendur kynferðisofbeldis fá hjá lögreglu á Kýpur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert