Meira brunnið í Ástralíu en í Amazon

Slökkviliðsmenn að störfum. Búist er við því að hitastigið muni …
Slökkviliðsmenn að störfum. Búist er við því að hitastigið muni ná allt að 40 stigum á morgun. AFP

Fyrir fjölda íbúa Viktoríufylkis í Ástralíu er of seint að yfirgefa heimili sín. Nú er það eina sem þeir geta gert að leita skjóls vegna hættunnar sem gífurlegir gróðureldar hafa í för með sér. Murray Valley-hraðbrautinni hefur verið lokað í báðar áttir vegna eldanna og situr stór hluti íbúa því fastur. Ástralska fréttasíðan News greinir frá þessu.

Búist er við því að veðrið á morgun verði afar óhagstætt hvað eldana varðar. Veðrið mun skapa aðstæður sem gæti verið erfitt að lifa af, að sögn slökkviliðs Ástralíu. 

Slökkviliðið sendi frá sér tilkynningu á samfélagsmiðlum í morgun þar sem neyðarviðvörun var gefin út fyrir ákveðin svæði og sagt „þið eruð í hættu. Það er of seint að yfirgefa svæðið.“ 

Mikil hætta á gróðureldum í framtíðinni 

Síðan í september hafa gróðureldar í Ástralíu eytt sex milljón hektara svæði en það er rúmlega tvisvar sinnum meira en það svæði sem skógareldarnir í Amazon-regnskóginum eyðilögðu í ágúst síðatliðnum. Landsvæðið sem hefur nú þegar eyðilagst í gróðureldunum í Ástralíu er jafnframt stærra en það sem eyðilagðist í skógareldum Amazon á öllu síðasta ári. 

Gróðureldarnir eru virkilega umfangsmiklir.
Gróðureldarnir eru virkilega umfangsmiklir. AFP

Hundruð þúsunda hafa þurft að yfirgefa heimili sín, á annan tug eru látnir og fjölda fólks er saknað. Þurrar aðstæður og hár lofthiti hefur valdið því að eldarnir hafa náð útbreiðslu sem fáir bjuggust við. Koltvísýringurinn sem eldarnir senda frá sér út í andrúmsloftið gerir hættuna á stórum eldsvoðum í framtíðinni meiri. 

Eins og áður hefur verið greint frá telja vist­fræðing­ar við há­skól­ann í Syd­ney að hátt í hálf­ur millj­arður spen­dýra, fugla og skriðdýra hafi drep­ist í eld­un­um frá því í sept­em­ber. Þar af er talið að átta þúsund kóaladýr hafi týnt lífi. Um 30% allra kóaladýra í Nýja suður-Wales hafa drepist í eldunum. 

Frétt Insider

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert