Fleiri fá rauða spjaldið

Af vef Lýðheilsustofnunar Noregs.
Af vef Lýðheilsustofnunar Noregs. Skjáskot af síðu FHI

Sóttvarnalæknir Noregs ætlar að mæla gegn ferðalögum til fleiri landa í vikunni. Þar á meðal Írlands, Bretlands og hluta Danmerkur. Austurríki og Grikkland fara einnig á lista yfir rauð svæði sem og Kaupmannahöfn og nágrenni.

Lýðheilsustofnun í Noregi uppfærir reglulega lista yfir þau lönd Evrópska efnahagssvæðisins og Schengen sem óhætt er að ferðast til en Noregur miðar við 20 ný smit á hverja 100 þúsund íbúa síðustu tvær vikurnar.

Ráðleggingar sóttvarnalæknis fara síðan til utanríkisráðuneytisins sem byggir á þeim þegar nýjar leiðbeiningar um ferðalög eru gefnar út, yfirleitt í vikulok.

Samkvæmt Sóttvarnastofnun Evrópu eru ný smit í Bretlandi nú 20,7, 22,3 á Írlandi, 22,5 í Grikklandi og 23,3 í Austurríki. Í Kaupmannahöfn eru þau 24.

Aftur á móti er talið líklegt að sænska héraðið Norrbotten fari af rauða listanum og yfir á gult þar sem ný smit þar eru nú 19,2. Þeir sem koma til Noregs af rauðum svæðum þurfa að fara í sóttkví, þar sem þeir mega ekki mæta í skóla eða vinnu, ekki fá heimsóknir, ekki nota almenningssamgöngur og aðeins fara í verslanir og apótek beri nauðsyn til. Ef ekki er hægt að tryggja fjarlægðarregluna á þessum stöðum er þeim óheimilt að fara þangað. Það er í lagi að fara út í göngutúr svo lengi sem tryggt er að eins metra fjarlægðarreglan sé virt.

Ef grunur leikur á kórónuveirusmiti er nauðsynlegt að fara í einangrun og sýnatöku.

Sjá nánar hér

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert