Ísland rautt í Noregi

Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, fór ekki í neinar grafgötur með …
Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, fór ekki í neinar grafgötur með það á fundi dagsins að ástand kórónumála væri ískyggilegt. Ferðalag til Íslands kostar tíu daga sóttkví í Noregi frá miðnætti á föstudag auk þess sem fimm önnur lönd fá sömu stöðu. AFP

Frá og með miðnætti á föstudagskvöld fær Ísland rauða stöðu á kórónuveirukorti norskra stjórnvalda ásamt Hollandi, Póllandi, Möltu, Kýpur og Færeyjum. Svæði í Svíþjóð og Danmörku fá einnig rauða merkingu sem táknar sóttkví við komu þaðan.

Erna Solberg forsætisráðherra og Bent Høie heilbrigðisráðherra kynntu þessar niðurstöður á blaðamannafundi sem enn stendur yfir þegar þetta er skrifað. Fór forsætisráðherra ekki í neinar grafgötur með að verulega hefði sigið á ógæfuhliðina í Noregi og fjölda annarra Evrópulanda síðustu vikur.

Kvaðst hún allra síst vilja þurfa að grípa til viðlíka ráðstafana og í vor þegar mesta inngrip í norskt samfélag á friðartímum var framkvæmt með þeim reglum sem settar voru 12. mars. Fundurinn í dag átti að fara fram á föstudag en var flýtt vegna stöðu sem norsk stjórnvöld meta ískyggilega.

„Maður keyrir ekki á gulu“

Enn fremur tekur nýtt litakerfi á kórónuveirukortinu nú gildi og leysir gulur litur græna litinn þar af hólmi þannig að þau lönd sem áður voru græn, og eru ekki nú orðin rauð, verða gul og táknar það að Norðmönnum er eindregið ráðlagt að ferðast ekki til þeirra landa nema brýna nauðsyn beri til. „Þetta er eins og í umferðinni, maður keyrir ekki á gulu ljósi,“ sagði ráðherra á fundinum.

Sex lén Svíþjóðar fá enn fremur rauða merkingu á föstudaginn, Östergötland, Örebro, Blekinge, Värmland, Uppsala og Dalarna, og í Danmörku verða Sjáland (að Kaupmannahöfn undanskilinni) og Mið-Jótland rauð.

Enn fremur bað forsætisráðherra þjóð sína þess lengst allra orða að ferðast helst ekki til útlanda í bráð og tilkynnti um leið að ferðaráð norska utanríkisráðuneytisins á kórónutímum framlengist nú til 1. október, það er að fólk er einfaldlega hvatt til þess að vera heima hjá sér.

NRK

VG

TV2

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert