Kjarnorkuver í byggingu í 7 Evrópuríkjum

Þegar kjarnorkuver komu fyrst til sögunnar á sjötta áratug síðustu …
Þegar kjarnorkuver komu fyrst til sögunnar á sjötta áratug síðustu aldar ríkti nokkur bjartsýni á framtíð þeirra sem lausnar á orkuvanda heimsins. Yfirleitt var rætt um þau í jákvæðum tón. Það breyttist með kjarnorkuslysunum í Three Mile Island 1979, Chernobyl 1986 og Fukushima 2011. AFP

Áform breskra stjórnvalda um byggingu kjarnorkuvers við Sizewell í Suffolk-sýslu á austurströnd Englands hafa vakið spurningar um kjarnorku sem orkugjafa og stöðu þeirra mála í okkar heimshluta. Stofnun Kjarnorkubandalags Evrópu árið 1957 lagði grunninn að notkun kjarnorku í álfunni. Kjarnorka er notuð í mörgum aðildarríkjum Evrópusambandsins (ESB) og hefur framkvæmdastjórnin strangt eftirlit með notkun hennar á grundvelli kjarnorkubandalagssáttmálans (e. Euratom Treaty). Hverju ríki er þó frjálst að ákveða hvort það noti kjarnorku.

Um 28 prósent raforku innan ESB kemur frá kjarnorkuverum samkvæmt tölum frá 2018. Dregið hefur úr notkun hennar um nær fimmtung á síðasta áratug. Af 27 núverandi aðildarríkjum ESB eru 13 með kjarnorkuver, Belgía, Búlgaría, Tékkland, Þýskaland, Spánn, Frakkland, Ungverjaland, Holland, Rúmenía, Slóvenía, Slóvakía, Finnland og Svíþjóð. Samtals munu um 109 kjarnaofnar vera í notkun í þessum löndum. Hlutur Frakklands er stærstur; þar er framleiddur um helmingur allrar kjarnorku í álfunni. Ný kjarnorkuver eru í byggingu í þremur ESB-löndum, Finnlandi, Frakklandi og Slóvakíu.

Tvö ESB-ríki til viðbótar, Danmörk og Ítalía, notast einnig við kjarnorku sem orkugjafa en hún kemur utanlands frá. Ítalir ráku kjarnorkuver fram til 1990 en hættu því eftir að kjósendur höfnuðu áframhaldandi rekstri þeirra í þjóðaratkvæðagreiðslu 1987. Verið er að byggja kjarnorkuver í þremur Evrópulöndum utan ESB, Rússlandi, Hvíta-Rússlandi og Tyrklandi.

Kjarnorkuver eru í 30 ríkjum heims en aðeins í fjórum þeirra, Frakklandi, Slóvakíu, Úkraínu og Ungverjalandi, er hún meginorkugjafinn. Bandaríkin framleiða mest af kjarnorku eða um 30 prósent allrar kjarnorku í heiminum. Þar eru um hundrað kjarnaofnar í 30 sambandsríkjum. Þeir framleiða um fimmtung allrar raforku í landinu. Kínverjar hafa lagt áherslu á byggingu kjarnorkuvera og hafa staðið fyrir miklum framkvæmdum á síðustu árum. Einnig er mikill uppgangur á þessu sviði á Indlandi, í Rússlandi og Suður-Kóreu.

Kjarnorkuverum fylgir áhætta

Kjarnorkuframleiðslu fylgir afar lítil losun gróðurhúsalofttegunda og hún er því mun vistvænni en rafmagn sem framleitt er með bruna jarðefnaeldsneytis. Í kjarnorkuverum er keðjuverkandi kjarnaklofnun notuð til að framleiða gufu sem síðan er látin knýja hverfla sem búa til rafmagn. Kjarnorkuverum fylgir hins vegar áhætta vegna mögulegrar geislamengunar. Ef kjarnorkuver bila þá geta afurðir kjarnaklofnunar borist út í umhverfið og þeir sem komast í tæri við þær verða fyrir geislun. Sum aðildarríki ESB telja ókosti kjarnorkunnar vega þyngra en kostina og eru því andsnúin nýtingu hennar. Þannig hefur Þýskaland markað þá stefnu að hætta að nota kjarnorku og stefnir að því að loka öllum kjarnorkuverum sínum. Í landinu voru 17 kjarnaofnar en slökkt hefur verið á 8 þeirra. Stefnt er að því að öllum verunum hafi verið lokað í árslok 2022. Í staðinn leggja Þjóðverjar áherslu á aukna notkun sólar- og vindorku. Enn er þó notast mikið við kol til orkuframleiðslu í landinu og eru Þjóðverjar stærstu notendur kola í því skyni í heiminum.

Þegar kjarnorkuver komu fyrst til sögunnar á sjötta áratug síðustu aldar ríkti nokkur bjartsýni á framtíð þeirra sem lausnar á orkuvanda heimsins. Yfirleitt var rætt um þau í jákvæðum tón. Það breyttist með kjarnorkuslysunum í Three Mile Island 1979, Chernobyl 1986 og Fukushima 2011. Almenningsálitið varð víða andsnúið kjarnorkunni og tvær grímur runnu á stjórnvöld og stjórnmálamenn um heim allan. En þessar stöðvar voru allar komnar til ára sinna og síðan hafa kröfur til kjarnorkuvera og öryggisráðstafanir við rekstur þeirra aukist stórlega. Enn hafa menn þó áhyggjur af afleiðingum hugsanlegrar hryðjuverkaárásar á kjarnorkuver auk áhrifa náttúruhamfara, og enn eru efasemdir um ágæti kjarnorkunnar mjög áberandi í opinberum umræðum. Þá er vaxandi umræða um kjarnorkuúrgang sem er óhjákvæmilegur fylgifiskur starfseminnar. Ekki er langt síðan skýrt var frá því að Finnar byggju sig undir að geyma geislavirkan úrgang úr kjarnorkuverum sínum í djúpum neðanjarðargöngum á lítilli grænni eyju. Var talið að hægt yrði að geyma hann þar í allt að 100.000 ár. Svipaðar leiðir hafa verið farnar í öðrum löndum en margir hafa þó áhyggjur af geislavirkum lekum frá þessum urðunarstöðum.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 27. mars. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert