„Ég vildi komast í návígi við þá“

Hermann Göring við Nürnberg-réttarhöldin.
Hermann Göring við Nürnberg-réttarhöldin. AFP

Fyrir 75 árum hófust Nürnberg-réttarhöldin en þar voru helstu leiðtogar Nasistaflokksins dæmdir fyrir stríðsglæpi sem framdir voru í seinni heimstyrjöldinni. Um var að ræða fyrsta alþjóðlega stríðsglæpadómstól sögunnar. 

Réttarhöldin hófust 20. nóvember 1945 þar sem 21 háttsettur foringi nasista var sóttur til saka í fyrsta skipti. Meðal þeirra var Hermann Göring, Rudolf Hess, Alfred Rosenberg, Fritz Sauckel, Joachim von Ribbentrop og Albert Speer. Undirbúningur fyrir réttarhöldin hófst árið 1943 er bandamenn komust að samkomulagi um að láta þýska stríðsglæpamenn gjalda fyrir gjörðir sínar þegar sigur væri í höfn. Aðeins sex mánuðum eftir að bardögunum lauk árið 1945 höfðu saksóknarar fjögurra ríkja safnað saman 300 þúsund vitnisburðum og 6.600 sönnunargögnum gegn hópnum.  

Frá Nürnberg-réttarhöldunum.
Frá Nürnberg-réttarhöldunum. AFP

Valið á þýsku borginni Nürnberg fyrir réttarhöldin er táknrænt því það var þar sem Adolf Hitler stóð fyrir fjöldagöngum fyrir stríð og lög gegn gyðingum voru sett árið 1935.

Þann 9. nóvember voru liðin 82 ár frá kristalnóttinni svokölluðu, Krist­allnacht, þegar nas­ist­ar réðust inn í bæna­hús gyðinga og heim­ili gyðinga og fyr­ir­tæki þeirra um allt Þýska­land og hluta Aust­ur­rík­is 9. nóvember 1938. Ráðist var á yfir eitt þúsund bænahús og markaði upphaf á hrottalegu ofbeldi í garð gyðinga sem endaði með fjöldamorðum víða um heim. 

Réttarhöldin í Nürnberg hófust klukkan 10 fyrir hádegi og voru 600 viðstaddir í réttarsalnum er breski dómarinn Geoffrey Lawrence sagði rétt settan. Fremstir voru háttsettustu einstaklingarnir innan Nasistaflokksins fyrir utan Hitler, Joseph Göbbels og Heinrich Himmler sem allir höfðu framið sjálfsvíg. 

Marie-Claude Vaillant-Couturier.
Marie-Claude Vaillant-Couturier. Ljósmynd/Wikipedia.org

Nicht schuldig

Ákærurnar voru meðal annars glæpir gegn mannkyninu og var þetta í fyrsta skipti í sögunni sem þær sakir voru bornar á fólk fyrir dómstólum. Mennirnir voru einnig ákærðir fyrir stríðsglæpi og fleiri brot. Þeir voru allir á einu máli - nicht schuldig eða ekki sekir. 

Þegar kvikmyndinni Nazi Concentration Camps var varpað á tjaldið við réttarhöldin 29. nóvember 1945, kvikmynd sem sýndi lífið, eða réttara sagt dauðann, í útrýmingarbúðum nasista neituðu einhverjir þeirra ákærðu að þetta hefði átt sér stað, þetta var upplýsingaóreiða þess tíma. 

Ég trúi þessu ekki

Myndin sýndi upptökur hersveita bandamanna sem frelsuðu fanga í útrýmingarbúðum nasista. Fritz Sauckel nötrar í réttarsalnum þar sem hann horfir á líkbrennsluofninn í Buchenwald og þegar lampaskermar birtust, gerðir úr húð fólks, sagði Julius Steicher, yfirmaður áróðursblaðs nasista, Der Stürmer, „ég trúi þessu ekki.“ Streicher var sá fyrsti úr hópi nasistanna sem var dæmdur sekur um þjóðarmorð við réttarhöldinn. Hann var tekinn af lífi 16. október 1946.

Leidd í gildru af frönsku lögreglunni

Meðal 33 vitna saksóknara var Marie-Claude Vaillant-Couturier, ein af hetjum frönsku andspyrnuhreyfingarinnar. Hún var handtekin 9. febrúar 1942 eftir að hafa verið leidd í gildru af frönsku lögreglunni ásamt félögum sínum í frönsku andspyrnuhreyfingunni. Fólki eins og Jacques Decour, Georges Politzer, Georges Solomon og Arthur Dallidet en þeir voru allir skotnir til bana af nasistum við Fort Mont-Valérien.

Vaillant-Couturier var flutt í Auschwitz-Birkenau í byrjun árs 1943 og þar var hún í 18 mánuði og varð vitni að útrýmingu gyðinga og róma-fólks. Hún var síðan flutt Ravensbrück-fangabúðirnar þar sem hún dvaldi þar til 30. apríl 1945 er Rauði herinn frelsaði búðirnar. Hún bar vitni við Nürnberg-réttarhöldin. Vitnisburður hennar var skelfilegur og stóð yfir á þriðju klukkustund. 

Nürnberg-réttarhöldin.
Nürnberg-réttarhöldin. AFP

Vaillant-Couturier talaði um konurnar í fangabúðum nasista sem fæddu börn í búðunum og hvernig nýfæddum börnum var drekkt fyrir framan nýbakaðar mæður. Hvernig fangar voru látnir drekka vatn úr forarpollum og neyddir á fætur til að vinna kl. þrjú á næturnar. 

„Áður en ég ávarpaði réttarsalinn gekk ég fram hjá þeim ákærðu, afar hægt. Ég vildi komast í návígi við þá,“ sagði hún síðar í viðtali við franska dagblaðið l'Humanite. „Ég vildi vita hvernig fólk sem var fært um að fremja svo skelfilega glæpi liti út.“

Eftir 218 daga, 1. október 1946, voru dómarnir kveðnir upp. Tólf þeirra ákærðu voru dæmdir til dauða, þar á meðal einn sem var fjarverandi. Martin Bormann, einkaritari Hitlers. Það sem dómurinn vissi ekki á þessum tíma var að Martin Bormann var þegar látinn. 

Þrír voru dæmdir í lífstíðarfangelsi, 2 í 20 ára fangelsi og einn í 15 ára fangelsi og 1 var dæmdur í 10 ára fangelsi. Þrír voru látnir lausir sem kom mörgum á óvart á þessum tíma. 

Nürnberg-réttarhöldin voru ekki hafin yfir gagnrýni því ekkert var þar minnst á mögulega glæpi Sovétmanna. Til að mynda fjöldamorðin í Katyn-skógi. Meira en 22 þúsund pólsk­ir her­menn voru drepn­ir í Katyn-skógi árið 1940, en Stalín gaf fyr­ir­skip­un um morðin. Sov­ét­menn héldu því alltaf fram að þýsk­ir nas­ist­ar hefðu staðið fyr­ir morðunum. Það var ekki fyrr en 1990 sem Rúss­ar viður­kenndu op­in­ber­lega að Stalín hefði gefið fyr­ir­skip­un um morðin.

Allt bendir til þess að banda­rísk stjórn­völd hafi vitað að Sov­ét­menn báru ábyrgð á fjölda­morðum.

Tíu þeirra sem voru dæmdir til dauða í Nürnberg voru hengdir 16. október 1946 klukkan 13. Nokkrum klukkustundum áður hafði Göring framið sjálfsvíg með því að taka inn eitur. Lík þeirra voru brennd og ösku þeirra hent í Isar-ána. Var það gert til þess að koma í veg fyrir að grafir þeirra yrðu samkomustaðir fólks sem aðhyllist hugsjónir nasismans. 

Hermann Göring í fangaklefa sínum.
Hermann Göring í fangaklefa sínum. AFP

Síðar voru haldin tólf réttarhöld til viðbótar í Nürnberg yfir læknum sem störfuðu með Nasistaflokknum, ráðherrum og herforingjum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert