Segir ekki tímabært að bólusetja í Þýskalandi

Fólk bíður þess að komast í skimun fyrir veirusmiti í …
Fólk bíður þess að komast í skimun fyrir veirusmiti í Berlín á föstudag. AFP

Ludwig Wolf-Dieter, formaður lyfjanefndar læknasamtaka Þýskalands, telur bóluefni BioNTech og Moderna ekki fullrannsakað. Hann segir mörgum mikilvægum spurningum enn ósvarað, einkum þeim sem varða fólk í áhættuhópi.

Hann á ekki von á að hefja bólusetningu í desember í Þýskalandi. Þetta kemur fram í viðtali í Die Welt.

Áður hefur Alexander Kekulé, einn helsti veirusérfræðingur Þýskalands, lýst því yfir að hann sé ekki tilbúinn að láta bólusetja sig að svo stöddu.

Wolf-Dieter segist í viðtalinu vera sammála Kekulé að þessu leiti. Vegna aldurs sé hann ekki tilbúinn að láta bólusetja sig fyrr en niðurstöður klínískra rannsókna á bóluefnunum verði birtar.

Tveir háttsettir læknar í Þýskalandi hafa sagt að þeir telji …
Tveir háttsettir læknar í Þýskalandi hafa sagt að þeir telji ekki tímabært að hefja bólusetningu í landinu. AFP

Vill vita um áhættuhópa

Hann segist vilja sjá hvaða aldurshópar hafi verið prófaðir og hvaða aukaverkanir hafi komið upp hjá einstökum hópum. Þá segir hann mikilvægt að sjá hve lengi ónæmið varir og hvort bóluefni hafi áhrif á ónæmi gagnvart öðrum sjúkdómum á borð við stífkrampa, barnaveiki og kíghósta.

Mennta- og rannsóknarmálaráðherra Þýskalands, Anja Karliczek, hefur sagt bóluefnið öruggt og að enginn þurfi að hafa áhyggjur. Aðspurður segir Wolf-Dieter ummæli hennar svolítið óvarleg.

Það megi segja að ekki séu neinar vísbendingar um alvarlegar aukaverkanir en ekki sé vitað til þess hvort að fólk í áhættuhópi hafi verið prófað. Hann bætir svo við að eðlilega sé ekki heldur hægt að segja til um langtímaaukaverkanir heldur. 

Vildi ekki bólusetja við svínaflensu

Ludwig Wolf-Dieter mælti ekki með bólusetningu við svínaflensunni árið 2009. Hann segir ástandið í dag ekki sambærilegt við árið 2009.

Tekið skal fram að Wolf-Dieter fagnar því að fram séu komin bóluefni sem prófað hefur verið á fjölda fólks svo fljótt. Hann gagnrýnir þó skort á gagnsæi varðandi gögn í klínískum rannsóknum og segir lækna ekki geta ráðlagt sjúklingum án aðgengi að gögnunum.

Hann leggur áherslu á að fréttatilkynningar frá framleiðendum bóluefna geti ekki komið í stað frumgagna. Tilkynningar framleiðenda á virkni bóluefna hafi minnt á uppboð.

BioNTech hefði þannig lofað 90% virkni, þá hafi Moderna komið og lofað 94% virkni. Daginn eftir hafi BioNTech lofað 95% virkni. Hann hefði kosið að fá að vita hvað væri á bak við tölurnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert