Leggja ákæru á hendur Trump fyrir þingið

Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildarinnar og leiðtogi demókrata í þinginu.
Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildarinnar og leiðtogi demókrata í þinginu. AFP

Demókratar í fulltrúadeild bandaríska þingsins hafa lagt fram tillögu að ákæru á hendur forsetanum Donald Trump til embættismissis.

Tillagan var lögð fram rétt í þessu og fylgdi í kjölfar tillögu þar sem kalla átti eftir því að Mike Pence varaforseti virkjaði 25. viðauka stjórnarskrárinnar og viki þannig Trump frá störfum.

Repúblikanar komu í veg fyrir að kosið yrði samstundis um þá tillögu og svöruðu demókratar með því að leggja fram tillögu um ákæruna (e. impeachment).

Lýtur hún að hvatningu forsetans til uppreisnar og er vísað til þess hlutverks sem hann lék í að hvetja múg til árásar á þinghúsið á miðvikudag.

Kjósa þarf um tillöguna í fulltrúadeildinni og nái hún meirihlutakosningu verður hún send öldungadeildinni til afgreiðslu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert