Repúblikanar gagnrýna Tucker Carlson

Tucker Carlson.
Tucker Carlson. AFP

Repúblikanar í öldungadeild Bandaríkjaþings og lögregla þingsins hafa gagnrýnt Fox News eftir að einn af fréttamönnum sjónvarpsstöðvarinnar birti myndband sem hafði ekki áður sést opinberlega af uppþotunum á þinginu fyrir tveimur árum og gerði lítið úr ofbeldinu þar.

Fréttamaðurinn Tucker Carlson sýndi myndbandið á mánudagskvöld og sagði að það „sýndi enga uppreisn eða uppþot í vændum“, heldur miklu frekar „mestmegnis friðsamlega óreiðu“.

Háttsettur þingmaður repúblikana lét Carlson fá myndbandið, að sögn BBC.

Sumir repúblikanar segja aftur á móti að Carlson hafi greint á misvísandi hátt frá því sem gerðist þegar ráðist var inn í þinghúsið.

Carlson, sem er vinsæll fréttamaður á hinni íhaldssömu Fox News, hefur lengið haldið því fram að aðrir fjölmiðlar hafi gert of mikið úr ofbeldinu í bandaríska þinghúsinu 6. janúar 2021, þegar stuðningsmenn Donalds Trumps, þáverandi Bandaríkjaforseta, ruddust inn í bygginguna á sama tíma og þingmenn komu saman til að staðfesta sigur Joes Bidens í forsetakosningunum.

Í 45 mínútna innslagi sínu sagði Carlson myndbandið sýna að á meðan minnihluti mótmælenda var ofbeldisfullur hefðu flestir verið „að fylgjast með“.

Mitch McConnell heldur á bréfi frá lögreglunni í þinghúsinu á …
Mitch McConnell heldur á bréfi frá lögreglunni í þinghúsinu á sama tíma og hann gagnrýnir Tucker Carlson og umfjöllun hans á Fox News. AFP/Drew Angerer

Mitch McConnell, leiðtogi repúblikana í öldungadeildinni, sagði að það hefðu verið „mistök hjá Fox News að sýna atburðinn í því ljósi sem er algjörlega á skjön við það sem lögreglustjórinn okkar hér í þinghúsinu segir“ um uppþotin. Benti hann á minnisblað frá lögreglustjóranum Tom Manger þess efnis. Þar segir hann að sjónvarpsútsending Fox News á mánudag á besta tíma „var uppfull af meiðandi og misvísandi ummælum um það sem gerðist í árásinni 6. janúar“.

„Í þættinum voru á þægilegan hátt handvalin rólegri augnablikin úr 41 þúsund klukkustundum okkar af myndböndum,“ skrifaði hann.

„Fréttamaðurinn talar ekkert um óreiðuna og ofbeldið sem átti sér stað fyrir eða á meðan þessi rólegri augnablik voru í gangi.“

Frá uppþotunum fyrir rúmum tveimur árum síðan.
Frá uppþotunum fyrir rúmum tveimur árum síðan. AFP/Roberto Schmidt

Að sögn bandaríska dómsmálaráðuneytisins var ráðist á um 140 lögregluþjóna þennan dag. Um 1.000 manns hafa verið handteknir í tengslum við uppþotin. Þar af hafa um 300 verið handteknir fyrir líkamsárás eða fyrir að hindra lögreglumann á einhvern hátt. Af þessum hópi hafa um 100 verið ákærðir fyrir að nota banvænt eða hættulegt vopn eða fyrir að meiða lögregluþjón alvarlega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert