Biggs fékk 17 ára fangelsisdóm

Joe Biggs.
Joe Biggs. AFP

Joe Biggs, einn af leiðtogum bandaríska öfgahópsins Proud Boys, hefur verið dæmdur í 17 ára fangelsi af dómstól í Bandaríkjunum.

Dóminn hlýtur Biggs, sem er 38 ára gamall og er fyrrverandi hermaður, fyrir hlut sinn í árás á þinghúsið í Bandaríkjunum í byrjun árs 2021 en Biggs er sagður hafa verið helsti hvatamaður að árásinni.

Þetta er þyngsti dómurinn sem fallið hefur vegna árásarinnar á þinghúsið en saksóknari fór fram á að Biggs yrði dæmdur í 33 ára fangelsi.

Grátklökkur fyrir dómi

Fyrir dómi baðst grátklökkur Biggs afsökunar á gjörðum sínum. „Ég er ekki hryðjuverkamaður og ég ekki er ekki með hatur í hjarta mínu. Ég veit að þarf að refsa mér og ég hef fullan skilning á því,“ sagði Biggs eftir að dómurinn hafði verið kveðinn upp.

Zachary Rehl, félagi Biggs í Proud Boys, fékk 15 ára fangelsisdóm, en hann var einnig sakfelldur fyrir að hvetja til uppreisnar við þinghúsið.

Að því er fram kemur á fréttavef BBC hafa rúmlega eitt þúsund manns verið handteknir eftir árásina. 630 þeirra hafa játað að hafa tekið þátt í árásinni og hafa 110 þeirra verið sakfelldir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert