„Hvað í fjáranum er að okkur?“

AFP

Níu eru látnir og fjölmargir særðir eftir að starfsmaður járnbrautarfyrirtækis í Kaliforníu hóf skothríð á starfsmannafundi í gær „Hræðilegur harmleikur,“ segir Joe Biden Bandaríkjaforseti.

Átta létust þegar Samuel Cassidy, starfsmaður Valley Transportation Authority, sem annast lestar- og strætisvagnasamgöngur í borginni San Jose í Kísildal, hóf skothríð á samstarfsfólk sitt snemma í gærmorgun. Þegar lögregla kom á vettvang beindi hann byssunni að sjálfum sér og framdi sjálfsvíg. Níunda manneskjan lést af völdum sára sinna á sjúkrahúsi. 

Lögreglan í San Jose rannsakar einnig eldsvoða í borginni sem er talinn tengjast árásinni. Samkvæmt bandarískum fjölmiðlum kviknaði eldurinn á heimili árásarmannsins skömmu áður en hann lét til skarar skríða gagnvart vinnufélögum sínum. 

AFP

Fyrrverandi eiginkona hans, Cecilia Nelms, segir í viðtali við Bay Area News Group að Cassidy hafi oft talað illa um samstarfsfólk sitt og yfirmenn og stundum beint reiði sinni gagnvart þeim að henni. Hún segir í samtali við AP-fréttastofuna að hann hafi talað um að drepa vinnufélaga sína fyrir um áratug síðan. „Ég trúði honum aldrei og ekkert gerðist fyrr en núna, “ sagði Nelms í viðtalinu við AP í gær. 

Fyrrverandi unnusta hans hefur sakað hann um nauðgun og annað kynferðislegt ofbeldi samkvæmt dómsskjölum sem San Francisco Chronicle fjallar um. 

„Hvað í fjáranum er að okkur og hvenær ætlum við að ná tökum á þessu?“ spurði ríkisstjóri Kaliforníu, Gavin Newsom, á fréttamannafundi í gær. Þar hrósaði hann lögreglu fyrir skjót viðbrögð í kjölfar árásarinnar. 

AFP

Lögreglan var snögg á vettvang eftir að tilkynning barst til Neyðarlínunnar snemma í gærmorgun um að ítrekaðir skothvellir hafi heyrst. Lögreglan beitti ekki vopnum gegn árásarmanninum og að sögn lögreglustjórans í Santa Clara-sýslu, Laurie Smith, er hún viss um að árásarmaðurinn hafi vitað að lögregla var komin á vettvang þegar hann framdi sjálfsvíg. Sprengjusveitin var einnig kölluð út eftir að hundar sýndu merki um að það væri sprengiefni á staðnum.  

Biden hvatti þingið enn á ný til að grípa strax til aðgerða hvað varðar byssueign í landinu. Nauðsynlegt sé að bregðast við því í hvert skipti sem einhver deyr af völdum byssukúlu nísti það hjarta landsmanna. 

 Samkvæmt upplýsingum frá yfirvöldum hófst skothríðin skömmu fyrir klukkan 7 í gærmorgun að staðartíma, klukkan 14 að íslenskum tíma. Að minnsta kosti 80 starfsmenn voru á fundinum þar sem árásin var gerð. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert