Þrefalt högg fyrir olíurisa í gær

Samsett mynd

Olíurisarnir Shell, Chevron og Exxon mobil gætu þurft að breyta útblástursstefnum sínum til framtíðar vegna þriggja aðskilinna áfellisdóma sem féllu á félögin í gær. Bæði dómsmál og stjórnaratkvæðagreiðslur gengu gegn núgildandi olíustefnum risanna sem gætu haft gífurlegar afleiðingar.

Shell tapar dómsmáli

Í Hollandi var Shell dæmt til að minnka útblástur gróðurhúsalofttegunda um 45% fyrir árið 2035 miðað við útblásturinn 2019. Málið hlaut nafngiftina „Fólkið gegn Shell“ og var rekið af um 17 umhverfisverndarhópum og 17.000 borgurum.

Shell taldi fyrirtækið ekki bera ábyrgð á því að uppfylla Parísarsamkomulagið og sagði þá ábyrgð á herðum ríkisins. Dómstóllinn taldi Shell hins vegar bera ábyrgð á gífurlega stóru koltvíoxíðspori og fyrirtækið bæri ábyrgð á þeim hamförum sem loftslagsbreytingar munu hafa í för með sér.

Holland er sérlega berskjaldað fyrir hnattrænni hlýnun og hækkun sjávarborðs af þeim sökum, en þriðjungur landsins er undir sjávarmáli.  

Sviptingar hjá Exxonmobil og Chevron

Á ársfundi Exxon mobil voru tveir aðgerðasinnar sem hafa lagt áherslu á umhverfisvernd kosnir inn í stjórn félagsins. Sitjandi stjórn hafði reynt að halda framboði aðgerðasinnanna í skefjum.

Hjá Chevron samþykkti meirihluti hluthafa félagsins tillögu aðgerðasinna um að minnka svokallaða þriðju umfangs losun. Það er óbeinn útblástur félagsins. 

Chevron og Exxon mobil eru stærstu olíufyrirtæki Bandaríkjanna og hafa hingað til viðhaldið þeirri stefnu að það sé þeim nauðsynlegt að fjárfesta í starfsemi sem tengist jarðefnaeldsneyti. Þessi yfirlýsing hluthafa félaganna gæti neytt þau til að breyta þeirri stefnu.

Exxon mobil hefur lengi verið óvinsælt í Bandaríkjunum, þessi mynd …
Exxon mobil hefur lengi verið óvinsælt í Bandaríkjunum, þessi mynd er af mótmælum í New York 2019. AFP

Umhverfisverndarsinnar gera sér því vonir um að niðurstöður gærdagsins marki stefnubreytingu í rekstri olíufyritækja beggja vegna Atlantshafs. Meiri áhersla verði þá lögð á orskuskipti og endurnýjanlega orkugjafa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert