Stefnubreyting hjá Kína?

Xi Jinping, forseti Kína.
Xi Jinping, forseti Kína. AFP

Það setti að ýmsum Vesturlandabúum ugg þegar Kína studdi afdráttarlaust yfirlýsta stefnu Rússa um að hamla yrði vexti NATO þann 4. febrúar. Yfirlýsingin þótti styrkja samstarf ríkjanna og vera táknræn sem slík, ekki síst í ljósi hættunnar á yfirvofandi innrás í Úkraínu.

Síðan komu skilaboð frá Peking um að Kína myndi ekki styðja Pútín ef til innrásar kæmi.

Fyrrverandi forsætisráðherra Ástralíu, Kevin Rudd, sagði tengsl ríkjanna vera betri en þau hefðu verið undanfarin 20 ár og velti upp þeirri hugmynd hvort Kína væri að taka sér stöðu alheimslögreglu á alþjóðavettvangi, í netumræðum sem haldnar voru á vegum hugmyndahóps Atlantshafsráðsins og bandarísku samtakanna Asia Society nýverið.

Vilja ekki meiri vöxt NATO

Hin afdráttarlausa afstaða Kína gegn stækkun NATO og stuðningur við Rússa út af öryggismálum er breyting frá fyrri stefnu um að forðast afskipti af innanríkismálum annarra ríkja og hefur sett ríkið í óvenjulega stöðu á alheimssviðinu, þar sem Kína þarf að stíga varlega til jarðar og bæði hafa í huga náin tengsl við Rússa og hagsmuni sína í efnahagsmálum í Evrópu.

Þegar forsætisráðherrann Wang Yi var spurður um mótsögnina sem fælist í stuðningnum við Rússa og hefðbundnu hlutleysi um málefni annarra þjóða sagði hann að fullveldi allra ríkja yrði að virða og Úkraína væri þar engin undantekning. Það leið ekki á löngu þar til reyndi á afstöðuna.

Í gærkvöldi viðurkenndi Pútín fullveldi tveggja svæða aðskilnaðarsinna innan Úkraínu og sendi inn herlið, en svæðin tvö hafa verið undir stjórn aðskilnaðarsinna tengdum við Moskvu.

Bandaríkin og stuðningsmenn þeirra fordæmdu Rússa á neyðarfundi Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna í nótt, en Kína boðaði yfirvegun og hvatti til þess að mál yrðu skoðuð vandlega frá öllum hliðum.

Línudans hagsmuna

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Kína hefur þurft að dansa línudans vegna tengslanna við Rússa. Þegar Rússar hertóku Krímskagann 2014 studdi Kína ekki árásina í Öryggisráði SÞ en bauð fjárhagslegan stuðning.

Núna, 8 árum síðar, eru takmörk fyrir því hvað Kína getur gert, eða vill gera, fyrir Rússa. Lykilatriði eru viðskipti og fjárhagstengslin við Evrópu. Með því að styðja Rússa opinberlega gætu samningar um mikla aukningu viðskipta Kína við Evrópu komist í uppnám.

Einnig segja margir stjórnmálaskýrendur að Kína vilji ekki auka á spennu í samskiptum sínum við Bandaríkin.

„Ástandið í Úkraínu gæti haft mjög slæm áhrif á samskipti Kína við bæði Evrópu og Bandaríkin,“ skrifaði Bill Bishop í Sinocism Kínafréttaveitunni. „Ég trúi því ekki að Xi og hans fólk vilji sjá Rússa ráðast inn í Úkraínu, þegar þeir sjá hvaða hagsmunir eru í húfi.“

Aðrir hafa tekið annan vinkil á stöðuna og sagt að Kína sé að hugsa til framtíðar um eigið öryggi með því að styðja að NATO vaxi ekki um of. Richard Ghiasy, sérfræðingur í stefnumótun í Haag segir að Kínverjar nái diplómatískri vigt með því að standa með Rússum og að þeir geri ráð fyrir sama stuðningi frá Rússum ef þess þyrfti.

Ögrun

Þrátt fyrir óljóst orðalag Kína um ástandið í Úkraínu er sameiginleg yfirlýsing Kína og Rússa frá byrjun mánaðarins í hróplegri andstöðu við afstöðu Bandaríkjanna og stuðningsmanna þeirra.

Í yfirlýsingunni eru vafasamar skilgreiningar á lýðræði og mannréttindum, sem bæði stjórnvöld í Moskvu og Peking hafa verið sökuð um að sniðganga árum saman.

Gagnrýnendur hafa sagt að þar séu tvö einræðissinnuð ríki að endurskilgreina grundvallargildi svo þau þjóni hagsmunum þeirra sjálfra.

„Þetta er greinileg ögrun,“ sagði utanríkismálastjóri Evrópusambandsins Josep Borrell á öryggisráðstefnunni á sunnudaginn. „Þetta er skýr yfirlýsing um stefnubreytingu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert