Segir nýtt kalt stríð hafið

Flemming Splidsboel Hansen, sérfræðings hjá dönsku alþjóðamálastofnuninni (DIIS), var með …
Flemming Splidsboel Hansen, sérfræðings hjá dönsku alþjóðamálastofnuninni (DIIS), var með innslag á fundinum í gegnum fjarfundarbúnað. mbl.is/Árni Sæberg

Nýtt kalt stríð er hafið og þurfa Evrópubúar að undirbúa sig fyrir þær breytingar sem eru í vændum. Erfitt er að spá fyrir um hversu lengi stríðsátökin muni standa yfir en ólíklegt er að þau verði jafn áköf og langdregin eins og í síðasta kalda stríði.

Með refsiaðgerðum Vesturlanda er líklegt að Rússar missi völd og gætu þeir því orðið ófyrirsjáanlegir í aðgerðum sínum í von um að endurheimta það sem glatast hefur.

Þetta kom fram í máli Flemming Splidsboel Hansen, sérfræðings hjá dönsku alþjóðamálastofnuninni (DIIS), á opnum fundi um innrás Rússlands í Úkraínu og þær afleiðingar sem innrásin hefur fyrir öryggi í Evrópu.

Fundurinn, sem fór fram fyrr í dag í húsakynnum Háskóla Íslands, var á vegum Alþjóðamálastofnunar HÍ, Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála og Félags stjórnmálafræðinga.

Spurður hvaða áhrif innrás Rússa í Úkraínu mun koma til með að hafa á Evrópu, segir Hansen að erfitt sé að segja til hvernig þetta muni enda. Aftur á móti liggi ljóst fyrir að áhrifin verði umfangsmikil.

„Það virðist vera almennur skilningur um að við höfum byrjað í nýju köldu stríði. Þetta Kalda stríð verður ekki jafn ákaft og langdregið og síðasta Kalda stríð – og ég vona að ég hafi rétt fyrir mér – í þeim skilningi að hernaðarátök verða ekki jafn mikil eins og í gamla kalda stríðinu og pólitísk átök verða ekki jafn áköf,“ segir Hansen.

„Það sem við sjáum í Rússlandi núna er ekki beint sterk hugmyndafræði. Þess í stað eru þetta hugmyndir á reiki sem hafa verið settar saman í pólitíska stefnu.“

Pútín ófyrirsjáanlegur

Þá segir hann allt benda til þess að Rússar séu að missa mikil völd á alþjóðavettvangi vegna refsiaðgerða Vesturlanda. Hann segir heiminn þurfa að undirbúa sig undir það en aðgerðir Rússa gætu orðið ófyrirsjáanlegar í tilraunum þeirra til að endurheimta það sem glatast hefur.

„Ég er nokkuð viss um að [Pútín] muni halda áfram hernaðaraðgerðum nema mannfall verði það mikið að hann verði að stoppa – eða þá að þeir átti sig á því að markmið þeirra sé mjög óraunsætt. 

Það virðist sem stefnan núna sé að handtaka eða myrða Selenskí, að losna við úkraínsk stjórnvöld og koma upp rússneskri leppstjórn. Þeir gætu aftur á móti hafa komist að þeirri niðurstöðu núna að jafnvel með leppstjórn þá myndi þjóðin að sjálfsögðu ekki vera hliðholl Rússum.“

Hann segir Rússa mögulega þurfa að draga sig í hlé og einbeita sér að því að semja um það sem þeir telja hvað mikilvægast, sem er að Krímskagi verði viðurkenndur sem hluti af landsvæði Rússa.

Rússar gæti þurft að aðlagast vestrænum veruleika

Hann segir framtíð Rússlands nú óræða en ef þjóðin veikist mikið vegna refsiaðgerða Vesturlanda og nær ekki að endurheimta fyrri styrk gæti það leitt til aðstæðna þar sem Rússar gætu jafnvel þurft að aðlaga sig að vestrænum gildum og veruleika.

Ef svo færi gæti það einnig haft áhrif á þau lönd sem eiga landamæri að bæði Rússlandi og Vesturlöndunum, svo sem Hvíta-Rússland og Moldavía.

Evrópubúar þurfi að vera reiðubúnir og taka ákvörðun um hvernig eigi að bregðast við og haga samskiptum við þau lönd þar sem mikill munur getur verið á stjórnarháttunum sem þar ríkja í samanburði við stjórnarhætti Evrópu. Sem dæmi nefnir Hansen að Hvíta-Rússland sé til að mynda eina landið í heimsálfunni sem heimilar enn dauðarefsinguna.

Viðhorfið gagnvart Úkraínu breyst hratt

Volodimír Selenskí forseti Úkraínu hefur nú formlega sótt um inngöngu í Evrópusambandið fyrir hönd Úkraínu. Spurður út í við hverju megi búast af því samstarfi, segir Hansen að hann telji líklegt að Úkraína verði samþykkt og það verði gert eins fljótt og auðið er.

„Það er ákveðin samstaða innan Evrópusambandsins um það að Úkraína eigi heima þar og að þetta sé eitthvað sem okkur hefur mistekist að ná í gegn.“

Hann segir viðhorfið gagnvart landinu hafa breyst gríðarlega hratt síðustu daga og vikur úr því að vera nokkuð neikvætt yfir í að vera mjög jákvætt.

Fyrir viku hefði fáum dottið til hugar að Úkraína ætti erindi í ESB, segir Hansen, sem grunar að aðild þeirra í sambandið eigi ekki eftir að ganga snurðulaust fyrir sig.

„Ef átökin enda – rússneskir hermenn draga sig til hlés líkt og við vonum, og Úkraínumönnum verður frjálst að setja sína eigin utanríkisstefnu – þá grunar mig að margir muni átta sig á því að Úkraína er stórt land og nokkuð fátækt. Það getur verið vandkvæðum bundið að samþykkja Úkraínu í Evrópusambandið. Þeir hafa mikla vinnu fyrir höndum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert