Kennir Kænugarði um misheppnaðan brottflutning

Pútín á fjarfundi fyrir helgi.
Pútín á fjarfundi fyrir helgi. AFP

Vladimír Pútín Rússlandsforseti kenndi stjórnvöldum í Kænugarði um það að mistekist hefði að flytja á brott borgara úr hafnarborginni Maríupol, sem umkringd er rússnesku herliði.

Þetta gerði leiðtoginn í símtali sínu við franska forsetann Emmanuel Macron fyrr í dag, að því er fram kemur í yfirlýsingu frá Kremlinni.

Mun hann hafa dregið athyglina að „þeirri staðreynd að Kænugarður hefur enn ekki uppfyllt samkomulag sem náðist um þetta bráða mannúðarástand“, segir í yfirlýsingunni.

Tvo daga í röð hefur þurft að fresta flutningi fólks úr borginni vegna brota Rússa á umsömdu vopnahlé.

Öryggi orkuversins tryggt

Segir hann að úkraínskir þjóðernissinnar hafi hindrað borgara landsins og erlenda ríkisborgara frá því að yfirgefa Maríupol, og nágrannaborgina Volnóvaka, þrátt fyrir samkomulag um vopnahlé.

Mun hann einnig hafa fullvissað Macron um að öryggi Saporisjía-kjarnorkuversins, þess stærsta í Evrópu, væri tryggt.

Leiðtogarnir ræddust við í eina klukkustund og 45 mínútur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert