Vilja temja hið „villta vestur“ netheima

Ursula von der Leyen, for­seti fram­kvæmda­stjórn­ar ESB.
Ursula von der Leyen, for­seti fram­kvæmda­stjórn­ar ESB. AFP

Evrópusambandið lagði lokahönd á nýja lagasetningu í dag sem miðar að því stór tæknifyrirtæki verði að fjarlægja skaðlegt efni á vefsíðum sínum. Lög um stafræna miðlun (DSA) er seinni liður í aðgerð sambandsins til að koma reglum yfir vefmiðla og spannar listinn yfir bannað efni allt frá hatursorðræðu, vísvitandi rangfærslum til barnakláms. Unnið hefur verið að lagasetningunni frá árinu 2020.  

Sögulegur árangur

Ursula von der Leyen for­seti fram­kvæmda­stjórn­ar Evr­ópu­sam­bands­ins sagði á Twitter að samkomulagið innan Evrópusambandsins um lögin í dag væri söguleg.

„Nýjar reglur okkar munu vernda notendur miðlanna, tryggja málfrelsi og opna möguleika fyrir viðskipti. Það sem er ólöglegt í raunheimum mun verða jafn ólöglegt í netheimum í Evrópusambandinu.“

Thierry Breton framkvæmdastjóri markaðsdeildar Evrópusambandsins sagði að með nýju lögunum gætu stóru tæknifyrirtækin ekki hagað sér lengur eins og stærð þeirra gerði það að verkum að þau gætu gert það sem þeim sýndist. „Þetta er stór áfangi fyrir borgara Evrópusambandsins,“ en áður hafði hann lýst netinu eins og villta vestrinu.

AFP

Samþykktin í dag er háð samþykki 27 ríkja bandalagsins og Evrópuþingsins. Reglugerðin tengist Stafrænu markaðslögunum (DMA) sem lokið var við í marsmánuði og tók á einokunartilburðum stóru tæknirisanna eins og Google og Facebook. Í vinnslu laganna var hart tekist á milli Evrópusambandsins og tæknirisanna um þætti eins og málfrelsi og gera má ráð fyrir að ekki séu allir sammála

Skyldur samfélagsmiðla

Tæknirisarnir hafa iðulega verið sakaðir um að stöðva ekki ólöglegt athæfi á miðlum sínum. Hryðjuverkaárás í Nýja-Sjálandi var sýnd í beinni útsendingu á Facebook árið 2019 og olli gífurlegri reiði og eins var árásin á Bandaríska þinghúsið í fyrra undirbúin og auglýst á samfélagsmiðlum.

Einnig er reynt að koma reglum yfir ólöglegt athæfi á vefsíðum þar sem verslað er með stolna hönnun eða vörur sem eru bilaðar, eða í engu samræmi við lýsingu þeirra á netinu.

Gagnsæi í lykilhlutverki

Reglugerðin gerir ráð fyrir að vefsvæðin verði að fjarlægja ólöglegt efni um leið og athygli þeirra er vakin á því. Einnig þurfa samfélagsmiðlar að losa sig við notendur sem brjóta lögin stöðugt á miðlinum.

Allir sem selja vörur á netinu þurfa að staðfesta hvaðan vörur þeirra koma, en þótt margar reglurnar eigi við alla á netinu er sérstaklega verið að setja skyldur á stærstu miðlana sem hafa yfir 45 milljón notendur í Evrópusambandinu. Þeim fyrirtækjum er einnig gert skylt að hafa gagnsæja stefnu þegar kemur að upplýsingasöfnun og algóritmum.

Ekki er búið að birta lista yfir stærstu fyrirtækin, en gert er ráð fyrir að þar verði tæknirisarnir Google, Apple, Facebook, Amazon, Microsoft og Twitter og líklega TikTok, Zalando og Booking.com.

Ólöglegt bæði í raunheimum og á netinu

Í tilkynningu frá Evrópuráðinu er lagasetningin kynnt sem „veröldin í fyrsta sæti þegar kemur að reglum í stafrænum heimi.“

„Það sem er ólöglegt í veröldinni er líka ólöglegt á netinu. Tilgangur laganna er að vernda stafrænt rými fyrir ólöglegu efni og að tryggja öryggi og réttindi notandanna,“ segir í tilkynningunni.

Hillary Clinton fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna hefur fagnað ákvörðun Evrópusambandsins í málaflokknum.

„Allt of lengi hafa stóru tæknirisarnir verið vettvangur hópa til að dreifa vísvitandi ósannindum og öfgaskoðunum án þess að bera nokkra ábyrgð. Núna er Evrópusambandið að taka á því máli.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert