Úkraínumenn fallast ekki á vopnahlé

Volódimír Selenskí vill ekki vopnahlé.
Volódimír Selenskí vill ekki vopnahlé. AFP

Úkraínumenn hafa hafnað tilboði Pútíns Rússlandsforseta, sem lagt hefur til 36 klukkustunda vopnahlé á átakasvæðum í Úkraínu.

Pútín lagði til að vopnahléið yrði á föstudaginn klukkan níu að morgni að íslenskum tíma en daginn eftir fagnar rússneska rétttrúnaðarkirkjan jólum.

Flestir Úkraínumenn héldu upp á jólin í desember líkt og Íslendingar en þá þurftu Úkraínumenn að þola miklar árásir af hálfu Rússa.

„Áróðursbragð“

Mykhailo Podolyak, ráðgjafi Vladimírs Selenskís, sagði að boð Pútíns væri áróðursbragð. Í yfirlýsingu hans á Twitter segir þá að Pútín verði að draga her sinn frá Úkraínu, vilji hann fá vopnahlé.

Bauðst hann til þessa að beiðni Kirill fyrsta, æðstaklerks rétttrúnaðarkirkjunnar. Er þar jólunum fagnað þann 7. janúar, á laugardaginn næsta.

Vilji réttlæta innrásina fyrir Rússum

Í yfirlýsingu frá Kreml segir: „Að teknu tilliti til beiðninnar hefur forsetinn skipað varnarmálaráðherra að framfylgja vopnahléi hjá hermönnum í fremstu víglínu.“

Greinendur BBC telja beiðni Pútíns vera meðal annars til þess fallna að stýra umræðunni innanlands og fá tækifæri til þess að framkalla viðbrögð Úkraínu og bæta þar með ímynd stjórnvalda.

Frétt BBC

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert