Óttast að fangar látist í klefum

Fangelsið í Stavanger. Öryggismál á næturvöktum þar eru talin verða …
Fangelsið í Stavanger. Öryggismál á næturvöktum þar eru talin verða í uppnámi fari sem horfir með niðurskurð og fækkun starfsfólks. Ljósmynd/Wikipedia.org/Jarle Vines

Tvö hundruð milljóna norskra króna niðurskurður á vettvangi fangelsismála, andvirði 2,7 milljarða íslenskra króna, vekur ugg meðal félaga í stéttarfélagi starfsfólks norska fangelsiskerfisins, Kriminalomsorgens Yrkesforbund. Ekki er ráðið í stöður fangavarða sem láta af störfum og óttast formaður Stavanger-deildar félagsins nú að fangar látist í klefum sínum.

„Okkur er einnig kunnugt um að nú standi til að fækka þeim sem eru á vakt um nætur,“ segir téður formaður, Bjarte Selland, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK.

Niðurskurðurinn bitnar á allri starfseminni innan múranna, svo sem verkstæðinu sem á venjulegum degi iðar af lífi. Nú stendur Anders Løvik verkstæðisformaður þar einn með borvél í hendi og verkfærin hanga á sínum stað á veggjunum. Á verkstæðinu geta fangarnir fengið tilsögn í handverki ýmsu og tekið þá þekkingu og reynslu með sér þegar þeir hefja líf sitt úti í samfélaginu á nýjan leik.

Núna er verkstæðið hins vegar lokað þar sem manneklan nægir ekki til að fangaverðir geti verið þar á verði þegar starfsemin er í fullum gangi.

Þurfi að kalla til lögreglu

Meðal þess sem Selland telur upp af lista sínum yfir óæskileg áhrif niðurskurðarins er háskalegt ástand sem skapast getur á næturvöktum komi eitthvað upp á. Fangaverðir verði, ef fram fer sem horfir, of fáir á nóttunni til að geta farið inn í klefa þurfi að hafa einhvers konar afskipti af föngum. Þar með þurfi þeir að kalla til lögreglu og bíða eftir henni sem hæglega gæti kostað mannslíf.

Eins óttast hann að fangarnir muni þurfa að verja meiri tíma innilokaðir í klefum sínum, eins og staðan er nú ganga þeir lausir innan fangelsisins stóra hluta dagsins. Aukin innilokun færi með sér aukna óánægju og þráðurinn verði styttri í mönnum sem ekki sé æskilegt í fangelsum.

„Framkvæmd samfélagsverkefnisins hnignar. Þar með verður leiðin til baka í afbrotin skemmri en hún ætti að vera,“ segir Selland.

„Ketil“, sem ber annað nafn í þjóðskrá, hefur setið um hríð í fangelsinu í Stavanger. Lætur hann vel af dvölinni, fangar hafi getað fundið sér ýmislegt til dundurs og reglulegar kvikmyndasýningar hafi verið í íþróttasalnum. Nú kveðst hann hins vegar finna fyrir breytingum, til dæmis hafi ýmsar athafnir sem gengu þvert á deildir fangelsisins lagst af.

Að hafa eitthvað til að hlakka til

„Það eru þessir litlu hlutir sem mestu skipta hér inni. Að maður geti tekið þátt í einhverju félagslífi, hitt aðra og haft eitthvað til að hlakka til, hvort sem það er bíó eða blakmót. Afplánunin verður mun þyngri í vöfum þegar þetta hverfur á braut. Það breytir líðaninni hér.“

Hallarekstur er á suðvesturumdæmi norsku fangelsismálastofnunarinnar, Kriminalomsorgen, en innan þess umdæmis er fangelsið í Stavanger. Nam rekstrarhallinn þar 36 milljónum í fyrra, jafnvirði 489 milljóna íslenskra króna. „Starfsstöðvarnar í suðvesturumdæminu eru í krefjandi fjárhagslegum aðstæðum,“ segir Tanja Rosså Ødegård umdæmisstjóri við NRK.

Fangelsismál í Noregi verða fyrir barðinu á svokallaðri ABE-niðurskurðaráætlun ríkisins eins og fjölmörg önnur starfsemi á vegum hins opinbera. ABE stendur fyrir Avbyråkratiserings- og effektiviseringsreformen eða Skriffinnskuskerðingar- og árangursaukningarvæðingin sem væri ein möguleg íslensk þýðing. ABE er afkvæmi ríkisstjórnar Ernu Solberg og hóf göngu sína árið 2014 með það fyrir augum að auka afköstin í ríkisrekstrinum með því að skera niður þar sem mögulegt er. Hafa fangelsismál sætt 0,5 prósenta niðurskurði ár hvert síðan og nú tekur skórinn að kreppa.

Húsaleigan ekkert grín

Bendir Ødegård til dæmis á húsaleigu sem fangelsið í Stavanger þurfi að greiða fasteignum ríkissjóðs, eða Statsbygg. Ekki fáist húsnæðið ókeypis. Þá hafi allir kostnaðarliðir hækkað, svo sem rafmagn, en fangelsi eiga ekki rétt á rafmagnsstyrkjum, strømstøtte, hins opinbera sem teknir voru upp þegar rafmagnsverð í landinu margfaldaðist í fyrra.

Cathrine Bjåland Moseng, fangelsisstjóri í Stavanger, tekur undir með umdæmisstjóranum. Starfsfólk hafi látið af störfum í fangelsinu og ekki verið ráðið í stöðurnar. Ýmsir þættir spili inn í hjá þeim sem leitað hafi í önnur störf, launin fyrst og fremst en einnig framtíðarhorfur í greininni og gott ástand á almennum vinnumarkaði.

Brotthvarf starfsfólk og niðurskurður að auki hafi ekki góð áhrif til lengdar. „Afleiðingarnar geta orðið þær að hrikta fari í stoðum þessarar rótgrónu starfsemi,“ segir Moseng.

NRK

VG

Skýrsla OPCAT-nefndarinnar um sjálfsvíg í norskum fangelsum

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert