Hlýtur 11 þúsund ára fangelsisdóm

Tyrkneski rafmyntajöfurinn Far­uk Fati­h Özer flúði land þegar rafmyntakauphöll hans …
Tyrkneski rafmyntajöfurinn Far­uk Fati­h Özer flúði land þegar rafmyntakauphöll hans fór á hausinn árið 2017. OZAN KOSE

Stofnandi rafmyntakauphallarinnar Thodex, sem varð gjaldþrota árið 2021, var dæmdur í 11.196 ára langt fangelsi í gær.

Hinn tyrkneski Far­uk Fati­h Özer stofnaði Thodex árið 2017, þegar hann var 22 ára gamall, og varð kauphöllin fljótlega ein af þeim stærstu í landinu. Aftur á móti hrundi kauphöllin árið 2021 og Özer fór í felur og flúði til Albaníu.

Hann fannst hinsvegar í Albaníu í ár og var framseldur til Tyrklands í júní.

Þá var hann sakfelldur fyrir peningaþvætti, fjársvik og skipulagða glæpastarfsemi. Özer sagði í dómsal að hann hefði ekki starfað svo „fúskaralega“ hefði ásetningur hans verið glæpsamlegur.

Systir hans, Serap, og bróðir hans, Guven, voru einnig sakfelld fyrir sömu glæpi. Tyrkneskar fréttaveitur segja að fórnarlömb glæpanna hafi verið 2.027 talsins.

Fangelsisdómar upp á nokkur þúsund ár hafa ekki verið óalgengir í Tyrklandi, í kjölfar þess að dauðarefsingin var afnumin árið 2004.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert