„Mér leið eins og ég væri að brotna niður“

Ísraelskir hermenn við eftirlit.
Ísraelskir hermenn við eftirlit. AFP

Yossi Landau hefur undanfarna áratugi unnið við að sækja og flytja lík í Ísrael. Ástandið nú hefur reynt verulega á hann og samstafsmenn hans þar sem þeir hafa þurft að sækja líkamsleifar þeirra sem vígamenn Hamas myrtu með hryllilegum hætti um liðna helgi. 

Fram kemur í umfjöllun AFP að Landau hafi vaknað við sírenuvæl á laugardag, en það er eitthvað sem hann hefur vanist þegar Ísraelar leita skjóls þegar verið er að skjóta flugskeytum yfir landamærin frá Gasa. 

Ísraleskir hermenn sjást hér handtaka mann við eftirlit í Beeri …
Ísraleskir hermenn sjást hér handtaka mann við eftirlit í Beeri í dag. AFP

Hann áttaði sig ekki strax á því að flugskeytaárásirnar hefðu aðeins verið aðferð til að afvegaleiða yfirvöld, en þau gerðu sér í fyrstu ekki grein fyrir því að vopnaðir hryðjuverkamenn úr röðum Hamas hefðu brotið sér leið yfir landamærin og gert innrás með þeim afleiðingum að um 1.200 manns létu lífið. 

Hefur aldrei séð neitt í líkingu við þetta

Í samtali við AFP lýsir hinn 55 ára gamli Landau, sem er búsettur í borginni Ashdod sem er norður af Gasa, þeim hryllingi sem mætti honum þegar hann fór strax á vettvang þar sem voðaverkin voru framin.

„Ég sá bíla á hvolfi, ég sá látið fólk á götunum,“ segir Landau um ástandið í bænum Sderot, sem er skammt frá landamærunum að Gasa. Þar frömdu liðsmenn Hamas fjöldamorð. 

Undanfarin 33 ár hefur Landau unnið sem sjálfboðaliði fyrir Zaka, sem eru samtök sem vinna við að sækja líkamsleifar þeirra sem hafa m.a. látist í átökum eða árásum. 

Landau segir á ástandið nú sé ekkert í líkingu við það sem hann hafi áður upplifað og séð. 

„Vegspotti, sem ætti að taka um korter að aka, hann tók okkur 11 klukkustundir því við fórum og sóttum alla og settum þá í líkpoka.“

Víða má sjá yfirgefna bíla í suðurhluta Ísraels, sem eldur hefur m.a. verið lagður að eða eru stórskemmdir eftir byssukúlur. 

Víða má sjá brenndar bifreiðar á götum úti í suðurhluta …
Víða má sjá brenndar bifreiðar á götum úti í suðurhluta Ísraels eftir árás Hamas. AFP

Hryllilegar lýsingar

Eftir að hafa sótt nokkra tugi líka, sem þeir settu svo inn í sérstaka flutningabíla með kælibúnaði, þá fór Landau og félagar hans til Beeri, sem er 1.200 manna þorp um fimm kílómetra frá Gasa. 

„Mér leið eins og ég væri að brotna niður. Og ekki bara ég, heldur allur hópurinn,“ segir Landau þegar hann rifjar þetta upp í samtali við blaðamann. 

Lýsingar hans eru skelfilegar þegar hann segir frá því þegar hann gekk inn á fyrsta heimilið þar sem hann kom að látinni ófrískri konu. „Maginn hennar hafði verið skorinn upp, barnið var enn þá þarna, enn tengt með naflastreng og það var búið að stinga það,“ segir hann. 

Hann segist hafa séð lík margra saklausra borgara, þar á meðal um 20 börn. Það hafði verið búið að binda hendur þeirra fyrir aftan bak áður en þau voru skotin og þau brennd. 

Þá segir hann að sum fórnarlambanna hefðu verið beitt kynferðisofbeldi. 

Alls létust um 100 manns í þorpinu

Ísraelsher hefur varpað um 6.000 sprengjum á Gasa í kjölfar …
Ísraelsher hefur varpað um 6.000 sprengjum á Gasa í kjölfar innrásarinnar um liðna helgi. AFP

Dofinn eftir allt ofbeldið og hryllinginn

Fram kemur í umfjöllun AFP, að þrátt fyrir að ísraelski herinn segist hafa náð tökum á landamærunum þá berast enn fregnir af skotbardögum á milli stríðandi fylkinga. 

Herinn greindi frá því að þeir hafi fellt hryðjuverkamann í dag í nágrenni þorps þar sem tónlistarhátíð var haldin um helgina þar sem Hamas framdi fjöldamorð. 

Ísrael hefur brugðist við innrás Hamas með því að varpa yfir 6.000 sprengjum á Gasa, að því er fram kemur í opinberum gögnum hersins. Alls hafa um 1.400 manns látist í þessum árásum á Gasa, að því að palestínskt heilbrigðisyfirvöld greina frá. 

Landau kveðst vera dofinn gagnvart því ofbeldi sem hafi átt sér stað. 

„Í gegnum starfið þá aðskiljum við tilfinningar okkar. Við verðum að gera það,“ segir Landau í samtali við AFP

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert