Um 315.000 látnir eða særðir

Fyrir stríð var talið að rússneskir hermenn væru u.þ.b. 360 …
Fyrir stríð var talið að rússneskir hermenn væru u.þ.b. 360 þúsund talsins. AFP/Kirill Kudrayavtsev

Um 315 þúsund rússneskir hermenn hafa fallið eða særst í stríðinu sem geisar á milli Rússlands og Úkraínu, samkvæmt gögnum frá bandaríska þinginu. Sá fjöldi nemur um 87% fjölda hermanna í rússneska hernum áður en stríðið hófst í febrúar 2022.

Þetta herma heimildir AFP-fréttaveitunnar. Heimildarmaður AFP bendir á að rússneski herinn hafi einnig misst um 2.200 skriðdreka í stríðinu. Fyrir stríð hafði herinn um 3.500 skriðdreka í sínum flota.

Volodimír Selenskí Úkraínuforseti er nú í heimsókn til Washington í von um að fá aukinn stuðning frá bandaríska þinginu. Þingið hefur aftur á móti orðið æ meira efins um að Úkraínumenn geti unnið stríðið með auknum fjárstuðningi Bandaríkjamanna.

Selenskí fundaði með Joe Biden Bandaríkjaforseta fyrr í dag.

Mannsfallið stóraukist

Í júlí 2022 sagði William Burns, forstjóri bandarísku leyniþjónustunnar, að samkvæmt gögnum sem leyniþjónustan hefði undir höndunum væru um 15 þúsund látnir og sennilega um 45 þúsund særðir. Tala fallinna hermanna virðist því hafa stóraukist síðan þá.

Stjórnvöld bæði í Kreml og Kænugarði hafa verið ófús við að greina fá tölu fallinna eða særðra hermanna í stríðinu.

Fyrir stríð var talið að rússneskir hermenn væru u.þ.b. 360 þúsund talsins.

Þungt bakslag eftir langa hernaðaruppbyggingu

Wall Street Journal greinir frá því að mannföllin í stríðinu hafi „seinkað fimmtán ára átaki Rússa við að nútímavæða landher sinn“. Til þess að bæta upp fyrir mannsfallið hefur Rússland gripið til „stórfurðulegra aðgerða“ eins og að kveða frelsaða fanga í herinn og senda þá á víglínurnar, að því er fram kemur í umfjöllun miðilsins.

Mike Johnson, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, hélt því fast fram eftir fund sinn með Selenskí í dag að Repúblikanar myndu ekki samþykkja frumvarp Bidens um 60 milljarða dala, eða um 8.400 milljarða króna, fjárveitingu til Úkraínu nema Demókratar samþykktu kröfur Repúblikana um innflytjendamál. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert