Komi í veg fyrir þjóðarmorð

Joan Donoghue yfirdómari við Alþjóðadómstólinn les dómsorðið.
Joan Donoghue yfirdómari við Alþjóðadómstólinn les dómsorðið. AFP/Remko de Waal

Joan Donoghue, yfirdómari Alþjóðadómstólsins í Haag í Hollandi, hefur lokið lestri úrskurðar síns í máli Suður-Afríku gegn Ísrael fyrir brot gegn lögum um þjóðarmorð. Meginniðurstaða dómsins er að Ísraelsmönnum beri skylda til að koma í veg fyrir stríðsaðgerðir sem kalla megi þjóðarmorð auk þess að liðka fyrir „bráðnauðsynlegu“ mannúðarstarfi á Gasasvæðinu.

Er Ísraelum hins vegar ekki gert að koma á vopnahléi heldur beri þeim að leggja mun meira af mörkum til að tryggja öryggi almennra borgara og koma í veg fyrir mannfall þeirra. Skuli þeir beita sér fyrir „tafarlausum og árangursríkum aðgerðum til að koma nauðsynlegum hjálpargögnum inn á átakasvæðið og tryggja þeim Palestínumönnum aðstoð sem upplifa hörmuleg lífsskilyrði“.

Riyad Al-Maliki, utanríkisráðherra Palestínu, lét þau orð falla í kjölfar dómsúrskurðarins að dómstóllinn hefði úrskurðað mannkyni í hag og hefði úrskurðurinn verið í samræmi við alþjóðalög.

Dómstólinn skorti ekki lögsögu

Kröfðust ísraelsk stjórnvöld þess að ásökunum um þjóðarmorð yrði vísað frá dómi en því hafnaði Donoghue og kvað dómstólinn ekki skorta lögsögu til að úrskurða um hvort um þjóðarmorð væri að ræða.

Mótmælendur hliðhollir Palestínumönnum fjölmenntu við Alþjóðadómstólinn meðan á málsmeðferð stóð.
Mótmælendur hliðhollir Palestínumönnum fjölmenntu við Alþjóðadómstólinn meðan á málsmeðferð stóð. AFP/Koen van Weel

Suðurafrísk stjórnvöld fögnuðu niðurstöðunni – sem er bráðabirgðaniðurstaða dómstólsins – einnig og kveða í yfirlýsingu alþjóðalög hafa farið með sigur af hólmi og dómurinn sé áfangasigur í leit Palestínumanna að réttlæti.

Fór dómurinn yfir ástandið á Gasasvæðinu og kom þar meðal annars fram að 1,4 milljónir Palestínumanna væru á vergangi og ættu hvergi höfði að halla nema í fátæklegum neyðarskýlum Sameinuðu þjóðanna.

Naledi Pandor, ráðherra alþjóðasamskipta og -samstarfs í Suður-Afríku (fyrir miðju) …
Naledi Pandor, ráðherra alþjóðasamskipta og -samstarfs í Suður-Afríku (fyrir miðju) hlýðir á dómsuppsögu upp úr hádegi í dag. AFP/Remko de Waal

Var það álit fimmtán dómara dómstólsins gegn tveimur að Ísrael væri skylt að grípa til aðgerða til að fyrirbyggja þjóðarmorð og sextán dómarar gegn einum úrskurðuðu að Ísraelum væri einnig skylt að láta af aðgerðum sem flokkast gætu sem þjóðarmorð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert