Starfsmenn SÞ grunaðir um aðild að árás Hamas

Antonio Guterres.
Antonio Guterres. AFP

Stofnun á vegum Sameinuðu þjóðanna sem aðstoðar palestínska flóttamenn hefur vikið nokkrum starfsmönnum úr starfi vegna tenginga við Hamas. 

Eru þeir grunaðir um að hafa átt þátt í skipulagningu eða framkvæmd árásar Hamas á Ísrael hinn 7. október. 

Philippe Lazzarini fer fyrir stofnuninni, UNRWA, og segir ákvörðunina hafa verið tekna svo hægt verði að sjá til þess að nefndin geti veitt þá mannúðaraðstoð sem henni er ætlað. 

„Þeir starfsmenn sem hafa tekið þátt í hryðjuverkaárásum með einhverju hætti verða dregnir til ábyrgðar og kærðir,“ hefur fréttastofa AFP eftir Lazzarini. 

Fram kom hjá honum að stjórnvöld í Ísrael hefðu sýnt fram á aðkomu starfsfólksins að árásinni með gögnum. 

Fjárveitingar Bandaríkjanna frystar

Antonio Guterres aðalritari SÞ segist hugsa til þess með hryllingi ef ásakanirnar eigi við rök að styðjast og hefur fyrirskipað rannsókn á starfsemi nefndarinnar. 

Utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna hefur fryst fjárveitingar til nefndarinnar á meðan málið er til rannsóknar en Bandaríkin hafa lagt mest fjármagn til mannúðarstarfs nefndarinnar. 

Um 1.140 manns frá ýmsum þjóðernum létust í árás Hamas þann 7. október. Flestir óbreyttir borgarar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert