Bændur teppa umferð á götum Þýskalands í mótmælaskyni

Um 1.500 dráttarvélar eru á götum Hamborgar.
Um 1.500 dráttarvélar eru á götum Hamborgar. AFP/Damien Meyer

Hundruð bænda í Þýskalandi hafa í dag mætt á dráttarvélum og lokað fyrir aðgang að mikilvægum höfnum eins og höfninni í Hamborg. Mótmæla þeir fyrirhuguðum niðurskurði á stuðningi við landbúnað.

Um 100 dráttarvélum var lagt á mikilvægum vegum til hafnarsvæðis Hamborgar, en höfnin þar er ein sú fjölfarnasta í Evrópu fyrir alþjóðlega gámaflutninga. Þar að auki er um 1.500 dráttarvélum lagt víðs vegar á götum borgarinnar til að stífla og trufla almenna umferð.

Bændur í Þýskalandi hafa mótmælt síðan í desember vegna áforma Olafs Scholz kanslara um að hætta niðurgreiðslum í landbúnaðargeiranum.

Ríkisstjórnin gengið til baka með sum áform

Mótmælin urðu til þess að ríkisstjórnin gekk að hluta til baka með fyrirhugaðan niðurskurð, lofaði að byrja aftur með afslátt af bifreiðagjöldum og að niðurgreiðsla á dísilolíu yrði afnumin í áföngum á nokkrum árum í stað þess að afnema niðurgreiðsluna strax.

En bændur hafa ekki látið undan mótmælunum og krefjast bændasamtök þess að ríkisstjórnin snúi alfarið við niðurskurðaráætlunum sínum.

Í nágrannaríkinu Frakklandi voru bændur einnig að loka helstu vegum í mótmælum sem beindust að launum, sköttum og reglugerðum.

Bændur í Þýskalandi eru allt annað en sáttir við áform …
Bændur í Þýskalandi eru allt annað en sáttir við áform ríkisstjórnarinnar. AFP/Damien Meyer
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert