Norðmenn vara við frystingu greiðslna

Espen Barth Eide, utanríkisráðherra Noregs.
Espen Barth Eide, utanríkisráðherra Noregs. AFP/Stian Lysberg Solum

Norðmenn hafa varað aðrar þjóðir við afleiðingum þess að hætta að styrkja Palestínuflóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna, UNRWA.

„Við hvetjum aðrar þjóðir sem hafa látið fé af hendi rakna til að íhuga víðtækari afleiðingar þess að hætta að styrkja UNRWA,” sagði Espen Barth Eide, utanríkisráðherra Noregs, í yfirlýsingu sem hann sendi AFP-fréttastofunni.

Noregur er einn af fáum stórum styrktaraðilum UNRWA sem enn senda fé til samtakanna eftir ásakanir um að 12 starfsmenn þeirra hefðu átt þátt í árás Hamas-samtakana á Ísrael 7. október.

Palestínumenn flýja frá borginni Khan Yunis á suðurhluta Gasasvæðisins í …
Palestínumenn flýja frá borginni Khan Yunis á suðurhluta Gasasvæðisins í gær. Í bakgrunni er reykjarský eftir loftárás Ísraela. AFP/Mahmud Hams

Þrettán þjóðir hafa fryst greiðslur til UNRWA, þar á meðal Bandaríkin, Þýskaland, Bretland, Svíþjóð og Ísland.

„UNRWA er nauðsynleg líflína fyrir 1,5 milljónir flóttamanna á Gasasvæðinu,” sagði í yfirlýsingu Eide. Hann bætti við að „til að komast hjá því að refsa í sameiningu milljónum manna þurfum við að gera greinarmun á því hvað einstaklingar hafa gert og fyrir hvað UNRWA stendur.”

Í árásinni 7. október drápu liðsmenn Hamas 1.140 manns, mestmegnis almenna borgara. Einnig tóku þeir um 250 gísla og segja Ísraelar að 132 þeirra séu enn á Gasasvæðinu, þar á meðal að minnsta kosti 29 sem talið er að hafi verið drepnir.

Eftir árásina á Ísrael, sem var sú mannskæðasta í sögu landsins, hóf Ísraelsher linnulausar árásir á Gasasvæðið sem hafa orðið að minnsta kosti 26.900 manns að bana, aðallega konum og börnum, að sögn heilbrigðisráðuneytis Hamas.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert