Skiptust á hundruðum stríðsfanga

Rússar og Úkraínumenn skiptust á hundruðum stríðsfanga í dag, aðeins viku eftir að rússnesk stjórnvöld sögðu Úkraínumenn hafa skotið niður flugvél með tugi handtekinna úkraínskra hermanna um borð.

Að sögn rússneska varnarmálaráðuneytisins voru 195 af hermönnum þeirra frelsaðir á meðan Volodimír Selenskí Úkraínuforseti sagði að 207 manns, bæði hermenn og almennir borgarar, hefðu snúið aftur til Úkraínu.

„Fólkið okkar hefur snúið aftur. 207 þeirra. Við skilum þeim heim sama á hverju gengur,” sagði Selenskí í færslu á samfélagsmiðli.

Úkraínskur fyrrverandi stríðsfangi fagnar komu sinni á heimaslóðir eftir fangaskiptin.
Úkraínskur fyrrverandi stríðsfangi fagnar komu sinni á heimaslóðir eftir fangaskiptin. AFP

Rússar segja enn óvissu ríkja um kringumstæðurnar þegar flugvélin brotlenti í síðustu viku við úkraínsku landamærin í vestri. Þeir segja 65 úkraínska fanga hafa verið um borð og að úkraínskar hersveitir hafi skotið vélina niður.

Úkraínsk stjórnvöld hafa ekki með beinum hætti neitað þessum staðhæfingum Rússa en setja spurningamerki við hvort úkraínskir hermenn hafi í raun verið um borð.

Fyrrverandi stríðsfangi grætur af gleði.
Fyrrverandi stríðsfangi grætur af gleði. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert