Trump gert að greiða tugi milljóna í málskostnað

Donald Trump fyrrverandi Bandaríkjaforseti.
Donald Trump fyrrverandi Bandaríkjaforseti. AFP/Sean Rayford

Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, hefur verið gert að greiða um 300 þúsund pund, eða það sem nemur rúmum 53 milljónum króna, í málskostnað vegna máls sem hann höfðaði fyrir breskum dómstólum. 

Málið varðaði skjöl, sem fyrirtækið Orbis Business Intelligence tók saman, um meint vændiskaup Trump og afskipti Rússa af forsetaframboði hans. Trump stefndi eiganda fyrirtækisins, breska njósnaranum Christopher Steele.

Pútín hafi reynt að koma Trump í embætti

Fullyrt var í skjölunum að rússnesk stjórnvöld hefðu undir höndum myndskeið af Trump með vændiskonum í Moskvu árið 2013.

Skjölin voru birt rétt áður en hann tók við forsetaembættinu árið 2017 og vöktu nokkra athygli. Þar kom einnig fram að Pútín Rússlandsforseti hefði stutt Trump í embætti forseta og greitt götu hans yfir að minnsta kosti fimm ára tímabil.

Málinu vísað frá 

Gögnin urðu til þess að Robert Mueller, sérstakur saksóknari Bandaríkjanna, hóf rannsókn á afskiptum rússneskra stjórnvalda af forsetakosningunum árið 2016 en ekki fékkst sannað að Trump hafi átt þátt í þeim aðgerðum.

Trump hefur ítrekað vísað ásökununum á bug og kallað þær falsfréttir. Í málinu byggði hann á því að Orbis Business Intelligence hafi unnið úr hans persónuupplýsingum á ólögmætan hátt. Hæstiréttur Bretlands vísaði málinu frá þar sem ekki var fyrir hendi rökstuddur grunur um slíkt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert