Margir særðir eftir hnífstungur

Lögregla í Södertälje í Svíþjóð er með fernt í haldi …
Lögregla í Södertälje í Svíþjóð er með fernt í haldi eftir átök þar sem hnífum var beitt í gærkvöldi og er fólkið grunað um tilraun til manndráps. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Fernt er í haldi lögreglu í bænum Södertälje, um 30 kílómetra suðvestur af sænsku höfuðborginni Stokkhólmi, grunað um tilraun til mannsdráps eftir atvik sem upp kom í Hovsjö-hverfinu þar í bænum á ellefta tímanum í gærkvöldi að sænskum tíma.

Barst lögreglu tilkynning um átök og er hún kom á vettvang varð ljóst að hnífum hafði verið beitt. Voru nokkrir fluttir á sjúkrahús til aðhlynningar en að sögn Pontus Sandulf, vakthafandi lögregluvarðstjóra, var fólkið „með meðvitund og viðræðuhæft“ þegar það var flutt af vettvangi.

Erfitt að meta fjöldann

Voru fjórmenningarnir, tveir karlmenn og tvær konur, handteknir um miðnæturbil í bifreið á E20-brautinni í námunda við Eskilstuna en lögregla getur enn sem komið er ekki svarað því hve margir tókust á í Södertälje.

„Þar sem einhverjir höfðu farið af vettvangi þegar við komum þangað er mjög erfitt að áætla það,“ segir Sandulf varðstjóri við sænska ríkisútvarpið SVT.

SVT

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert